fimmtudagur, nóvember 05, 2015

Hæpið

Ríkissjónvarpið sýndi í gær annan þátt af Hæpinu í umsjón Katrínar Ásmundsdóttur og Unnsteins Manuels Stefánssonar.

Hæpið fjallar um málefni ungs fólks og þema tveggja síðustu þátta hefur verið ‘stelpur’. Fyrri þátturinn sem var á dagskrá 28. október (og var jafnframt fyrsti þáttur vetrarins) fjallaði um kvenfrelsisbyltingar á árinu, undanfara þeirra og ávinning. Ég hafði aldrei séð Hæpið (þótt þátturinn hafi fengið Edduverðlaun) fyrr en þarna og fannst efnistökin afar góð. Rætt var um: hrelliklám, free the nipple, kynfrelsi, kynferðislegt ofbeldi, 6dagsleikann (þ.e. hversdagsleg kvenfyrirlitning), þöggun, konur tala, beauty tips, appelsínugular og gular prófílmyndir,klám og disneyprinsessur.

Seinni þátturinn með stelpuþemanu var semsagt í gær og var beint framhald af hinum fyrri en fjallaði aðallega um réttarkerfið og kynferðisofbeldi.

Rætt var við breiðan hóp viðmælenda í þáttunum, þar á meðal starfskonu Stígamóta, sálfræðing og rannsóknarlögreglumann, og lögmaður sem finnst kynferðisbrot fái alltof mikla umfjöllun fékk einnig að tjá sig átölulaust. Mér fannst reyndar að hefði mátt sleppa viðtalinu við hann* en jafnframt tel ég það þáttagerðarfólkinu til hróss að vilja og geta rætt af stillingu við einhvern úr þeim herbúðum líka.

Hæpið endaði þó á jákvæðum nótum með því að Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hvatti stráka til að endurskilgreina karlmennsku.

Ég mæli með að skoða síðu þáttarins á ruv.is, horfa á þættina á Sarpnum á netinu eða í þar til gerðum sjónvarpstækjum, og bendi á að von er á fleiri Hæpum næstu miðvikudaga. Ég bíð spennt.

___

* Var ég ein um að hugsa: „Til í allt án Villa“?

Efnisorð: , , , , , , , ,