þriðjudagur, nóvember 03, 2015

Hversdagslega kynjamisréttið á fjarlægri kappakstursbraut

Bílar, bílablað Fréttablaðsins er lítill kálfur sem fylgir blaðinu einu sinni í mánuði. Í dag var forsíða bílablaðsins lögð undir reynsluakstur í Þýskalandi í boði þarlends bifreiðaframleiðanda.

Hér verður ekki hirt um að ræða aksturseiginleika bílsins, en til að útskýra tilhögun reynsluakstursins þá var bílablaðamaðurinn ekki einn um að vera að reynsluaka slíku farartæki á kappakstursbrautinni og voru því margir bílar til reiðu. Til þess að enginn færi sér að voða fóru ökumenn á vegum bifreiðaframleiðandans á undan þeim sem voru að reynsluaka.

Svona segist bílablaðamanninum frá.
„Farið var út á braut í fjögurra bíla hópum með undanfara á sams konar bíl. Hóparnir voru tveir og skemmtilegt frá því að segja að þessir tveir undanfarar voru feðgin og dóttirin reyndur kappakstursökumaður sem náð hefur góðum árangri í keppnum. Ekki slæmt að hafa slíkan undanfara og útlit hennar skemmdi alls ekkert fyrir heldur!“
Kannski var þessi útlitsútlistun eingöngu ætluð lesendum uppi á Íslandi. En það væri fróðlegt að vita hvort bílablaðamaðurinn var svo hreinskilinn að segja beint við konuna: mundu að þú ert alltaf dæmd eftir útlitinu alveg sama hvernig þú stendur þig í starfi eða hversu góðum árangri þú nærð í þinni keppnisgrein.

Hvernig er það annars, var pabbi hennar alveg útlitslaus?

Efnisorð: ,