mánudagur, október 19, 2015

Tvær ólíkar fjölskyldur sem báðar eru velkomnar en hrekja á burt

Útlendingastofnun hefur synjað albanskri fjölskyldu um hæli, og neitar að taka hælisumsókn sýrlenskrar fjölskyldu til efnislegrar meðferðar og ætlar að senda hana til Grikklands. Það er fullkomlega galið að verið sé að reka fólk héðan burt meðan verið er að undirbúa komu flóttamanna hingað, þetta fólk er þó hingað komið og hrein mannvonska að þvæla þeim til baka loksins þegar þau héldu að þau væru komin í skjól.

Annars hafa allar fréttir af þessum úrskurðum Útlendingastofnunar gert mér gríðarlega gramt í geði, ekki bara vegna stífni stofnunarinnar heldur hef geri ég alltaf þau mistök að lesa athugasemdir við fréttir. Og verð óð yfir mannfyrirlitningunni, rasismanum og heimskunni. Skammast mín fyrir að tilheyra menginu Íslendingar, enda þótt ég viti vel að svona viðhorf finnast eflaust hjá öllum þjóðum.

Þessvegna var ég fegin þegar ég las afar skynsaman og góðan pistil Guðmundar Andra Thorssonar og ekki síður leiðara Magnúsar Guðmundssonar á sömu opnu. Magnús rifjar upp að Útlendingastofnun hefur með ákvörðunum sínum á undanförnum árum
„ítrekað vakið hneykslan og reiði almennings á Íslandi. Þjóðin stendur í sífelldum undirskriftasöfnunum, beiðnum, áskorunum og guð má vita hverju en stofnunin hefur staðið fast á stífu regluverki sama á hverju dynur.“
Sem er alveg í stíl við að forstjóri Útlendingastofnunar segir að úrskurðirnir um albönsku og sýrlensku fjölskyldurnar verði ekki endurskoðaðir. Það verður greinilega að breyta lögum um Útlendingastofnun og setja henni aðrar starfsreglur.

Guðmundur Andri beitir þeirri aðferð að setja Íslendinga í þær aðstæður að þeir séu hvergi velkomnir.
„Íslenskri fjölskyldu var synjað um dvalarleyfi í Tromsö í Noregi þar eð sýnt þótti að fólkið væri einungis þangað komið í leit að betri lífskjörum. Maður einn upprunalega frá Djúpavogi var sendur burt frá Kópavogi og aftur til Vestmannaeyja þar sem hann hafði þegar fengið starf og gat hann ekki sýnt fram á að annað vekti fyrir honum með vistaskiptunum en ævintýralöngun. Konu einni var neitað um kaup á kjallaraíbúð í Karfavogi og hún send aftur í Grundargerði því að hún gat ekki sýnt fram á að aðrar ástæður væru fyrir flutningum en að hún vildi að börnin hennar færu í Vogaskóla.“
Það vantar talsvert uppá það að virkir í athugasemdum átti sig á því hvað það er sturlað að ætlast til þess að Íslendingar geti flust hvert sem þeir vilja af hvaða ástæðum sem er og séu allstaðar velkomnir, en samt eigi að loka Íslandi fyrir öllum útlendingum sem hér vilja setjast að. Eins og við séum guðs útvalda þjóð sem leyfist allt en aðrir séu óhreinir og ekki þess verðir að deila með okkur landinu.

Guðmundur Andri skrifar margt fleira skynsamlegt og gott í pistli sínum. Og sannarlega eru margir Íslendingar á sama máli og hann, þótt það endurspeglist ekki í athugasemdakerfum eða úrskurðum Útlendingastofnunar.

Efnisorð: ,