miðvikudagur, september 30, 2015

Septemberuppgjör

Hitt og þetta hefur verið bloggskríbentnum hugleikið í septembermánuði en ekki orðið að sérstökum pistli eða eingöngu verið minnst á í framhjáhlaupi. Skal nú bætt úr því.

Fæðingarorlof feðra
„Frá hruni hefur það verið árleg frétt að færri feður taki fæðingarorlof en áður. Um fimmtungur feðra barna fæddra árið 2014 ákváðu að taka ekki fæðingarorlof.“ Þannig hefst leiðari Fanneyjar Birnu Jónsdóttur. Hún skýrir frá því að fæðingarorlofssjóður standi illa og ræðir þetta mál allt frá ýmsum hliðum. Undir lok leiðarans segir hún svo:
„Á sama tíma og nauðsynlegt er að veita meiri fjármuni til fæðingarorlofssjóðsins, sem og að hækka þakið, verður þó að benda á að markmið fæðingarorlofslaganna er ekki það að foreldrar geti haldið uppi fyrri lífsstíl á launum frá sjóðnum. Víða annars staðar í heiminum er fyrirhyggjusemi nauðsynleg áður en tekin er ákvörðun um að eignast barn, sem líklegast er ein fjárhagslega dýrasta ákvörðun í lífi hvers foreldris. Þó að ljóst sé að gera verði betur við nýbakaða foreldra verða þeir einnig að sníða sér stakk eftir vexti.“
Þetta finnst mér góður punktur sem mætti ræða oftar. Auðvitað er til fólk sem virkilega hefur ekki efni á neinum fjárhagslegum dýfum, en það á varla við um allan þennan fjölda. Líklegasta skýringin er samt sú að þessir karlmenn hafi bara engan áhuga á að vera heima í feðraorlofi en beri fyrir sig fjárhagslegum ástæðum.

Kampavínsklúbbar og vændi
Greiningardeild ríkislögreglustjóra segir vændi vera að aukast á höfuðborgarsvæðinu. Vísbendingar eru um að mansal tengist kynlífsþjónustu á kampavínsklúbbunum.
„Ýmislegt bendir til að vændisþjónusta þrífist í kringum þessa staði, sem séu að minnsta kosti fimm talsins á höfuðborgarsvæðinu. Í skýrslunni segir að oft sé þar um erlendar stúlkur að ræða. Ekki sé þó vitað með vissu hvort þær séu fluttar nauðugar til landsins eða hindraðar í að ferðast um frjálsar.“
Ætli kampavínsklúbbaeigendur séu allir ekki allir komnir í Amnesty?


Samviskufrelsi
Orðið samviskufrelsi er aldrei notað nema þegar verið er að réttlæta hómófóbíska presta. Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður VG á hrós skilið fyrir að leggja fram fyrirspurn á þingi um þjónustu presta og mismunun á grundvelli kynhneigðar, og koma þessu ríkisstyrkta óréttlæti og mismunun á dagskrá.


Sniðgangan sem hvarf
Snubbótt tilraun borgarstjórnar Reykjavíkur til að sniðganga vörur frá Ísrael var eingöngu lýst með orðinu „sniðgönguklúður“ í pistli hér á bloggsíðunni en ekki stóð til að víkja sér undan því að taka afstöðu í málinu. Hugmyndin var góð, útfærslan var kannski ekki eins góð (þó leikur grunur á að það sé eftiráskýring, og sömuleiðis sú fullyrðing að aðeins hafi átt að sniðganga vörur frá hernumdu svæðunum).
(Þess má geta að sniðgangan hafði þær afleiðingar að íslenskur bjór var tekinn úr sölu í búð í Bandaríkjunum. Ég grét hástöfum þegar ég frétti það.)

Það var hinsvegar pínlegt að sjá borgarstjórn draga þessa ákvörðun til baka undir hótunum síonista sem sögðust ætla að sniðganga Reykjavík og jafnvel Ísland og íslenskar vörur. Eða eins og Hrafn Jónsson sagði:
„Viðskiptaþvinganir Ísraela á Íslendingum eru annars ágætt dæmi um mátt viðskiptaþvingana yfir höfuð.“
Það voru reyndar fleiri sem reyndu – og tókst – að hafa áhrif á borgarstjórnarmeirihlutann.

Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, áframsendi Degi bréf frá Eggerti Dagbjartssyni, einum af þeim fjárfestum sem koma að byggingu Marriott-hótels við Hörpu, sem lýst hafði áhyggjum af viðbrögðum við ákvörðun borgarstjórnar.

Eitt er nú að þessi Eggert hafi talið að sniðgangan hefði áhrif á viðhorf fjárfesta (hann talaði sérstaklega um að hann vonaði að þeir fréttu ekki af sniðgöngu borgarstjórnar, en skrifaði bréfið á ensku og sendi þeim eflaust afrit, því varla talar hann við Höskuld á því tungumáli nema menn séu að fara eftir 2007 hugmyndum fyrrum bankastjóra Landsbankans um að taka alfarið upp ensku). Hitt ruglið er að bankastjóri Arion banka hafi séð ástæðu til að áframsenda bréf Eggerts til borgarstjórans. En bréfið – ofan á skammir frá ríkisstjórninni vegna fyrirhugaðrar sniðgöngu síonista — virkaði og Dagur ákvað að hætta við sniðgönguna (breyta henni í öðruvísi sniðgöngu en í raun hætta því sem var verið að skamma hann fyrir).

Ingi Vilhjálmsson gaf borgarstjórn þessa einkunn eftir viðsnúninginn:
„Í staðinn fyrir að sýna að meirihlutinn standi fyrir eigin prinsipp í verki með því að senda Ísraelsstjórn dálítinn diplómatískan selbita á innlendum og alþjóðlegum vettvangi þá hefur þessi meirihluti sýnt að hann stendur ekki við eigin ákvarðanir og lætur fjármagnsöfl og einkahagsmuni úr viðskiptalífinu stýra ákvörðunum sínum. Í staðinn fyrir að hafa búið til fordæmi fyrir aðrar þjóðir og borgir hefur meirihlutinn í Reykjavíkurborg orðið að aðhlátursefni fyrir vingulsháttinn.“
En bréfaskriftum var ekki alveg lokið. Agnar Kr. Þorsteinsson skrifaði opið bréf til Höskuldar og spurði hann um utanríkisstefnu Arion banka.
„Ef aftur á móti bankinn er ekki með pólitíska stefnu þá átt þú sem bankastjóri ekki að reyna að vera að þrýsta á stjórnmálamenn í nafni bankans né aðrir innan bankans. Fyrirtæki og sérstaklega ekki fjármálafyrirtæki í ljósi skaðans sem þau hafa valdið Íslandi, íslenskum almenningi og umheiminum, eiga ekki að vera að hafa afskipti af stjórnmálum né hafa rétt á því að beita sér gegn mannréttindabaráttu líkt og Arion-banki varð uppvís að með þessu bréfi þínu enda eru fyrirtæki dauð fyrirbæri en ekki manneskjur og hafa því ekki stjórnmálaskoðanir.”
Bréf Agnars er ógurlega góð lesning sem enginn má missa af.


Meiri Áslaug
Var ég annars nokkuð búin að skrifa það hér að Áslaug Friðriksdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði við samstarfsfólk sitt í borgarstjórn: „Þið teljið að þið séuð ekki nasistar af því þið séuð góða fólkið“. Og átti við að allir þeir sem ekki kaupa vörur frá Ísrael séu nasistar að ofsækja gyðinga. Síðan þá hefur hún margsinnis beitt nasistastimplinum, eins og áður hefur verið rætt.
(Yfirskriftin er röng: það þarf minna af Áslaugu.)


Efnisorð: , , , , , , ,