miðvikudagur, september 16, 2015

Ungfrú Ungverjaland

Af einhverjum annarlegum ástæðum finnst ungversku stjórninni eðlilegt að hindra för flóttamanna sem önnur Evrópulönd hafa lýst sig reiðubúin að taka á móti. Í ofanálag er farið hraksmánarlega með flóttamenninna í Ungverjalandi og meðferðin á þeim fer versnandi, ef eitthvað er.

Í viðleitni minni við að reyna að muna að Ungverjar eru ekki allir pakk (eflaust skammast margir þeirra sín fyrir hegðun stjórnvalda og hafa ekki látið telja sér trú um að ástæða sé til útlendingaótta) þá fór ég að rifja upp brottflutta Ungverja og afkomendur þeirra. Þegar nasistar hertóku Ungverjaland fluttu þeir 550.000 gyðinga í fangabúðir. Það var megnið af gyðingum landsins en þó tókst allmörgum að flýja frá meginlandi Evrópu. Furðu margir, eða afkomendur þeirra, urðu heimsfrægir skemmtikraftar og skulu nú nokkrir taldir upp.

Faðir Mark Knopfler gítarleikara var gyðingur sem flúði frá Ungverjalandi 1939.

Rachel Weisz leikkona á foreldra sem eru gyðingar, faðir hennar ungverskur en móðirin austurrísk. Þau flúðu undan nasistum til Bretlands áður en heimsstyrjöldin braust út.

Gabor systurnar Magda, Zsa Zsa og Eva fæddust í Búdapest. Sú elsta fluttist til Bandaríkjanna árið 1939 en hinar systurnar flúðu ásamt móður sinni þegar nasistar hertóku Ungverjaland 1944. Þær systur urðu frægar leikkonur en ekki síður fyrir fjölmörg hjónabönd sín.

Snillingurinn Stephen Fry er kominn af ungverskum gyðingum í móðurætt, afi hans og amma fluttu til Bretlands á millistríðsárunum en allmargir ættingjar móður hans týndu lífi í fangabúðum nasista.

Móðir Drew Barrymore fæddist í flóttamannabúðum fyrir Ungverja í Þýskalandi eftir stríð.

Þetta eru bara örfáir af þeim ungversku gyðingum eða afkomendur ungverskra gyðinga sem urðu að yfirgefa heimkynni sín vegna uppgangs eða hernáms nasista. Gyðingar flúðu Ungverjaland rétt eins og önnur Evrópulönd vegna ofsókna löngu fyrir þann tíma (og sumir einfaldlega vegna möguleika á betra lífi eins og gengur) og meðal þeirra eru Harry Houdini, Bela Lugosi sem lék Drakúla og Johnny Weissmuller sem lék Tarzan. Hvar væri heimsbyggðin án tarsanöskursins?

Ungverskur almenningur og stjórnvöld vita auðvitað um alla þá sem þurftu að flýja ofsóknir nasista (seinni tíma flótti og flutningar eru ekki tekin með í reikninginn hér). Sú vitneskja að stór hluti þjóðarinnar hafi hrakist á brott — og verið tekið opnum örmum annarstaðar ætti líka að vekja Ungverja til meðvitundar um hve öfugsnúið viðhorf ungverskra stjórnvalda er. Það má reikna með að margir Ungverjar séu hreyknir af hinum brottfluttu og hve góðum árangri margir náðu í starfi (listinn yfir tónlistarmenn, vísindamenn o.fl. er langur). Það er því auðvitað enn óskiljanlegra að líta á flóttamennina sem ógn eða hreinlega óværu sem er hrekja skal burt, í stað þess að líta á mannauðinn.

Þess má geta að Zsa Zsa Gabor sem varð Ungfrú Ungverjaland 1936, er enn á lífi, 98 ára gömul.


___
[Viðbót] Zsa Zsa Gabor lést 18. desember 2016, tæpum tveimur mánuðum fyrir 100 ára afmælið.

Efnisorð: ,