laugardagur, september 12, 2015

Vonbrigði og vonarglæta

Sjaldan hefur álit mitt á einni manneskju hrapað jafn hratt og þegar ég las viðtalið við Björk Vilhelmsdóttur fráfarandi borgarfulltrúa.

Mér finnst algjörlega óásættanlegt hvernig hún talar um fólk sem hefur orðið fyrir áföllum í lífinu, og vont þótti mér að lesa að hún er „til í að borga fyrir sálfræðinga á hverri einustu heilsugæslustöð“ en bara ef sálfræðingarnir meini fólki að „velta sér uppúr þessu“. Mér finnst hún tala mjög niður til þeirra sem þurfa fjárhagsaðstoð, og það kom mér í opna skjöldu að manneskja af vinstri væng stjórnmálanna skuli hlynnt skilyrðingum á fjárhagsstoð — að svelta fólk til vinnu.

Ég tók fyrir margt löngu saman umræður um fólk sem þiggur bætur (þetta var þegar atvinnuleysi var mun meira en nú er, en á þó enn við) og einhverntímann skrifaði ég líka pistil í tilefni af því að Sjálfstæðismenn í velferðarráði Reykjavíkur (þá vissi ég ekki að Björk var sammála þeim) gagnrýndu hækkun á fjárhagsaðstoð til þeirra sem ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum.

Annað viðtal í Fréttablaðinu, degi á eftir hinu, vakti líka athygli mína, þótt í því kæmi ekkert á óvart. Þar er talað við tvo atvinnurekendur sem barma sér ógurlega yfir að fá ekki fólk í vinnu, og taka sérstaklega fram hvað þeim komi á óvart að enginn skuli vilja vinna hjá þeim því enn sé „mælanlegt atvinnuleysi“. Atvinnuleysistölur eru einnig taldar upp í upphafi fréttarinnar svo það er greinilega verið að stilla þessu upp á þann hátt að það sé til fullt af fólki sem er atvinnulaust sem vill þó ekki vinna hjá þessum mönnum.

Tvennt er þó ekki upplýst í fréttinni: hvaða laun eu í boði (semsagt hvort þau séu svo léleg að enginn geti lifað af þeim) og tengsl annars vinnuveitandans við eigendur Fréttablaðsins. En kannski er það bara smámunasemi hjá mér að finnast það skrítið að það sé ekki tekið fram að viðmælandi blaðsins sé sonur Ingibjargar Pálmadóttur. (Mér finnst líka alltaf skrítið þegar verið er að hampa rapparanum Gísla Pálma á síðum blaðsins eða á Vísi, og það ekki tekið fram að hann er bróðursonur Ingibjargar, en það er kannski bara ég. Og ég er komin langt út fyrir efnið.)

Í fyrri bloggpistlinum sem ég vísa í hér fyrir ofan er einmitt komið inná það, sem Ingibjargarsyninum virðist ekki hafa skilist, að það þurfi að hækka lægstu launin svo fólk fáist til að vinna þau, en ekki að lækka atvinnuleysisbæturnar.

Það er nógu slæmt að auðvaldið vilji kúga fólk til að starfa gegn lágum launum þótt vinstra fólk taki ekki undir. En góðu fréttirnar eru þær að í Bretlandi var Verkamannaflokkurinn að eignast nýjan leiðtoga og hann hefur barist mjög gegn öllum niðurskurði á velferðarkerfinu, og án þess að ég viti það fyrir víst þykist ég viss um að hann er ekki hlynntur skilyrðingu fjárhagsaðstoðar.

Kosning Jeremy Corbyn er vonandi vísbending þess að sósíalískar skoðanir eigi upp á pallborð kjósenda þar í landi og hugsanlega á Vesturlöndum almennt (sbr. framboð Bernie Sanders til forseta í Bandaríkjunum). Sannarlega mættu önnur lönd (nefni engin nöfn) velja sér flokksleiðtoga (minnist ekki á Samfylkinguna) sem beina flokkum sínum á sósíalískar brautir. Þá er bara eftir þetta smáræði: að kjósendur kjósi flokka sem velja fólk framyfir fjármagn.

Efnisorð: ,