föstudagur, ágúst 07, 2015

Tillaga sem hefði sómt sér vel á ársfundi FIFA

Það er grafalvarlegt mál ef mannréttindasamtökin Amnesty International taka upp á sína arma baráttu fyrir því að lögleiða bæði kaup og sölu á vændi um heim allan. Ekki bætir úr skák að það er allt eins líklegt að Íslandsdeild samtakanna kjósi með tillögu þess efnis á heimsþingi samtakanna því úr þeim herbúðum heyrist engin gagnrýni á tillöguna. Nær væri þeim að halda á lofti sænsku leiðinni sem hefur verið tekin upp hér á landi: að leyfa sölu á vændi svo vændiskonur hafi lögin með sér en ekki á móti,* og banna jafnframt kaup á vændi með það að markmiði að uppræta eftirspurnina.

Verði tillagan samþykkt, og í kjölfarið tekin upp sem baráttumál Amnesty, munu allir vændiskúnnar heims halda því fram að það séu mannréttindi að þeir hafi aðgang að kvenmannsskrokki til að svala fýsnum sínum á. Geta þá enda vísað til þess að helstu mannréttindasamtök heims hafi barist fyrir þessum „rétti“ þeirra.

Ég veit ekki hvað fær svo virt mannréttindasamtök til að lítillækka sig með því að íhuga að verja rétt karla til að kaupa kynlíf. Vonandi verður þessi hræðilega tillaga felld.



___
* Já ég veit að vændisfólk er af öllum kynjum en stærstur hluti er konur.

Efnisorð: , ,