þriðjudagur, júlí 21, 2015

Tækifæri í Thatcherískum anda

Alþingisvaktin var nafnlaus vefsíða þar sem birtust veturinn 2012-2013 beitt og skemmtileg skrif um pólitík. Hefði mátt lifa lengur.

Hér er dæmi um hvernig Sjálfstæðisflokknum er (rétt) lýst á síðu Alþingisvaktarinnar:
„Þótt efnahagsstefna sjálfstæðismanna hafi nú þegar framkallað eitt stærsta bankahrun veraldarsögunnar virðast þeir hvergi hafa hvikað frá stefnu sinni. Ef eitthvað er hafa þeir forherst í hatri sínu á samneyslu og styrkst í ofurtrú sinni á blind markaðsöfl.“

En í sama pistli sló Alþingisvaktin sjaldgæft feilpúst:
„Alþingisvaktin efast um að áætlunum í anda Thatcher verði hrint í framkvæmd á Íslandi í bráð, enda er ólíklegt að Sjálfstæðisflokkurinn muni sitja í næstu ríkisstjórn.“

Því miður rættist það nú samt.

Ég skrifaði í síðasta mánuði um kjaradeilu kvennastétta hjá ríkisspítölunum og sagði að það væri frjálshyggjudraumur að flæma heilbrigðisstarfsfólk þaðan svo það gæti annað stöður hjá einkareknu fyrirtæki á sviði lækninga og heimahjúkrunar í Ármúla (eða sjúkrahótel eða hvað það nú er). Sigríður A. Andersen, nýjasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins (kom inn eftir fráfall Péturs Blöndal)* skrifaði svo pistil fyrr í vikunni sem snerist einmitt um þetta gullna tækifæri hjúkrunarfræðinga og annarra starfsmanna heilbrigðiskerfisins, kát mjög enda stæk frjálshyggjumanneskja.

Ekki kom þessi afstaða stjórnarflokksþingmannsins neitt á óvart heldur sannaði það sem vitað var fyrir: Þessi ríkisstjórn ætlar sér að ganga milli bols og höfuðs á heilbrigðiskerfinu.


__
* Leiðrétting: Ranglega var fullyrt að Sigríður hafi verið borgarfulltrúi.

Efnisorð: , , ,