föstudagur, júní 12, 2015

Fjármálaráðherra vill ekki hækka laun kvennastétta og hefur til þess ýmsar ástæður

Aldrei stóð til að semja við hjúkrunarfræðinga, geislafræðinga, lífeindafræðinga, náttúrufræðinga og ljósmæður(eða aðra í BHM), og nú að setja lög á vinnudeilurnar í stað þess að leiða þær til lykta með samningum. Skiljanlega er gríðarleg óánægja með þetta hjá þessum starfstéttum. Ég get alveg tekið undir þær ályktanir að vegna þess að um kvennastéttir sé að ræða sé enginn vilji hjá ríkisvaldinu til að hækka laun þeirra neitt sérlega mikið, enda eiga konur auðvitað helst að vinna kauplaust og lifa á hugsjóninni einni saman.

En það er líka önnur skýring sem ég aðhyllist líka (ég er svo fjölhæf að ég get haft margar skoðanir á einu máli) og sú tengist því að hjúkrunarfræðingar hafa verið að segja upp vegna þessarar vonlausu stöðu í kjaramálum. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að góðir og gegnir Sjálfstæðismenn eru að setja á laggirnar einkarekið fyrirtæki á sviði lækninga og heimahjúkrunar í Ármúla. Og þar bjóðast hjúkrunarfræðingum (og jafnvel fleiri stéttum) eflaust betri kjör en á Landspítalanum (en þó ekki svo góð að arður eigendanna verði ekki umtalsverður), og þannig er hægt að slá tvær flugur í einu höggi: veikja opinbera heilbrigðiskerfið með því að flæma burt menntað, hæft og nauðsynlegt starfsfólk, og lokka það til að styrkja stöðu einkareknu heilbrigðisþjónustunnar. Frjálshyggjudraumur í dós.

Efnisorð: , ,