sunnudagur, maí 24, 2015

Hvítasunna

Í dag rak ég augun í stærðar skilti sem auglýsir Smáþjóðaleikana sem haldnir verða á næstunni (ef þá ekki verkföllin setja strik í reikninginn). Eins og mér finnst nú óskemmtilegt þegar krotað er á allt sem fyrir verður, þá helltist yfir mig þörf til að breyta ð í f (gerði það ekki) enda er ekki hægt annað en hugsa: smáþjófaleikar.

Það voru samt engir smáþjófar sem ég fór að hugsa um þegar ég sá skiltið heldur stórþjófaleikarnir sem gengu undir nafninu Icesave sem stjórn og stjórar Landsbankans stóðu fyrir hér um árið þegar þeir fengu þessa tæru snilldarhugmynd að láta grandalausa útlendinga moka í fé í bankann undir yfirskini. Fyrir nokkrum dögum gerði Kolbeinn Proppé blaðamaður á Fréttablaðinu mér nefnilega þann óleik að skrifa um Icesave, með tímalínu og öllu (voru ekki annars örugglega allir lesendur bloggsíðunnar búnir að skoða Pantigate tímalínuna? Hún er eiginlega enn betri eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna á Írlandi. En nú er ég víst komin útaf sporinu, sem er von, því hvern langar til að velta sér meir uppúr Icesave?). Kolbeinn heldur því semsagt fram að
„Þau sem biðu þess tíma að Icesave-draugurinn vomaði ekki lengur yfir landinu þurfa að bíða aðeins lengur. EFTA-dómstóllinn mun taka afstöðu til þriggja spurninga Breta og Hollendinga í haust. Verði svörin spyrjendum í hag er líklegt að þeir muni reka mál fyrir héraðsdómi.“
Eins og það sé ekki nógu kvíðvænlegt bætir Kolbeinn þessu við:
„niðurstaðan allt eins orðið sú að allt fé sem fer inn í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta í framtíðinni gangi upp í kröfurnar, sem gætu numið allt að 1.000 milljörðum króna. Það þarf ekki að velkjast í vafa um að það væri þungt högg fyrir fjármálakerfið og jafnvel ríkisvaldið.“
Það er auðvitað ljótt af mér að skjóta Kolbein fyrir að vera sendiboða (nær væri að krefjast þess að stjórn og stjórar Landsbankans á tímum Icesave sæti öll bak við lás og slá) — en það er svo auðvelt að missa sig í allskonar bull þegar Icesave ber á góma, maður fer eiginlega að tala tungum. Sem er auðvitað viðeigandi í dag, því á þessum degi fyrir tæpum tvö þúsund árum kom „heilagur andi, þriðja persóna guðdómsins, yfir lærisveinana ellefu svo að þeir fóru að prédika á ókunnum tungum, sem aftur gerði það að verkum að 3.000 manns gengu Kristi á hönd“, með þeim afleiðingum að þessi dagur er þetta formlegur stofndagur kirkjunnar.

Það sem mér finnst áhugaverðast við þennan dag er að hann er eini lögboðni frídagur vegna helgihalds kirkjunnar sem tengist ekki beint fæðingu eða dauða Jesú. Mér finnst skrítið að íslenska þjóðkirkjan skuli ekki hafa fyrir löngu fjarlægt sig þessum degi, enda þótt hann teljist stofndagur kristinnar kirkju, og látið hann hvítasunnumönnum eftir því það eru jú þeir sem hafa sérhæft sig í að tala tungum eins og lærisveinarnir forðum. Ef ég réði einhverju í þjóðkirkjunni myndi ég forðast alla tengingu við hvítasunnumenn — en ég myndi heldur ekki skrifa grein í blöð árið 2015, ef ég væri biskupinn, til að segja að ég teldi það ekki vandamál að 10% presta innan þjóðkirkjunnar eru ekki tilbúnir til að vígja fólk af sama kyni í hjónaband. Það er semsagt ekki svo langt yfir í bókstafstrú hvítasunnumanna.

Í þjóðkirkjunni er líka haldið við sérkennilegri tengingu við gömul viðhorf með því að halda sérstakan kristniboðsdag í nóvember ár hvert. Þá er beðið í kirkjum landsins fyrir kristniboði í fjarlægum löndum og „að fleiri verði kallaðir út á akurinn“. Það er sorglegt útaf fyrir sig að hvíti maðurinn sé enn að stunda trúboð, en ekki síður að svona nýlendutímaviðhorfi sé flaggað árlega í kirkjunni.

Ætli stórþjófarnir íslensku sem og aðrir fjárglæframenn, líti ekki enn á þjóðir heims, Ísland meðtalið, einsog nýlendu sem þeir geta arðrænt.


Efnisorð: ,