mánudagur, maí 18, 2015

Enn verkföll

Hér um daginn þegar ég tók saman yfirlit um verkföll þá gerði ég það fyrst og fremst fyrir sjálfa mig því ég átti erfitt með að henda reiður á hvaða stéttir væru í verkföllum, hverjar ætluðu í verkfall og hvað hver vinnustöðvun stæði lengi. Ég birti fyrra yfirlitið 23. apríl og hið síðara 1. maí. Til stóð að endurtaka leikinn vikulega en þegar Fréttablaðið tók uppá því 6. maí að tileinka verkfallsaðgerðum heila síðu og hefur endurtekið leikinn flesta daga vikunnar þá sá ég ekki lengur ástæðu til að halda þessu pjakki mínu áfram.

En svona fyrir þau sem ekki lesa Fréttablaðið (ég lái ykkur það ekki enda þótt ég sé býsna ánægð með þetta framtak blaðsins, eða svona að mestu leyti, sjá síðar) og hafið ekki rekist á listann yfir verkfallsaðgerðir í gangi á Vísi, sem er ekkert sérlega læsilegur þar, þá ætlaði ég hér að vísa á hverja síðu Fréttablaðsins fyrir sig en það hefur ekki gengið. Ég athuga með það síðar, ef ég á annað borð endurtek þennan leik að stela úr Vísi/Frbl. til endurbirtingar hér.

En á þessum síðum eru einnig viðtöl og ýmis fróðleikur í tölum um verkföllin. Ég átti reyndar afar erfitt með viðtalið við Gunnar Bergmann hrefnuútgerðarmanni en veiðar liggja niðri vegna verkfalls dýralækna. Fram til þessa er þetta eina jákvæða dæmið um áhrif verkfallanna sem ég hef heyrt um. Eða átti kannski einhver að hafa samúð með hrefnuútgerðarmanninum? Er ekki nóg að pabbi hans berjist fyrir hagsmunum hans á þingi?

Hér er staðan orðrétt eins og hún var birt í blaðinu á fimmtudag, en ég uppfærði þó fjölda þeirra daga sem verkfall hefur staðið yfir. Daginn eftir frestaði Starfsgreinasambandið verkföllum sem áttu að hefjast á morgun en í staðinn hefjast þau eftir tíu daga hafi ekkert verið að gert.

Verkfallsaðgerðir í gangi
Bandalag háskólamanna (BHM)
Ótímabundið verkfall hjá hluta aðildarfélaga stendur enn yfir.
Í dag er 42. dagur í verkfalli fimm þeirra:

1. Félag geislafræðinga
Hefur meðal annars áhrif á starfsemi Landspítalans. Ekki er hægt að framkvæma margvíslegar rannsóknir sem krefjast röntgenmyndatöku.

2. Félag lífeindafræðinga
Áhrif á framkvæmd rannsókna á Landspítalanum. Lífeindafræðingar starfa á rannsóknastofum sjúkrahúsa og fyrirtækja í erfðagreiningu og lyfjaiðnaði, auk stofnana sem þjóna landbúnaði.

3. Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala
Koma að frumu- og sameindalíffræði, eðlis- og efnafræði, lífeðlis- og lífefnafræði, erfðafræði og líftækni, örveru- og veirufræði, ónæmisfræði, blóðbankafræði, vefjafræði, meinafræði, faraldsfræði, tölfræði og kerfislíffræði.

4. Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala | þri., mið. og fim.
Raskar starfi kvennadeildar, en undanþágur hafa verið veittar, svo sem vegna keisaraskurðaðgerða.

5. Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu
Ekki er hægt að ganga frá alls kyns opinberum skiptum, gjaldþrota- eða skiptum dánarbúa, skilnuðum, hjónavígslum og fleiri hlutum.

Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri
Ótímabundið verkfall hófst 9. apríl. Verkfall á mánudögum og fimmtudögum. Aðgerðir eru því á 40. degi.

Hafa verið í verkfalli frá 20. apríl, í 29 daga
1. Félag íslenskra náttúrufræðinga á Matvælastofnun Meðal annars áhrif á eftirlit með plöntuheilbrigði, matvælaöryggi og neytendavernd.

2. Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun Raskar margvíslegu eftirliti og rannsóknum.

3. Dýralæknafélag Íslands Stórfelld áhrif á matvælaframleiðslu. Uppáskrift dýralækna og eftirlit þarf við slátrun og einnig vegna innflutnings.


Fréttir dagsins í dag
Fundur BHM og samninganefndar ríkisins hjá Ríkissáttasemjara í dag var árangurslaus. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.

Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins samþykkti í dag boðun ótímabundins verkfalls hjá Fjársýslu ríkisins.
Verkfallið á að hefjast 2. júní.

Það er því miður fátt sem bendir til að þessu ástandi fari að ljúka.

Efnisorð: