fimmtudagur, apríl 30, 2015

Apríluppgjör

Apríl hefur verið tíðindaríkur. Ég hef reynt að gera jafnóðum grein fyrir því helsta sem gripið hefur athygli mína en alltaf verður eitthvað útundan. Skal nú gerð bragarbót á því.

Reyndar dró Ragnheiður Tryggvadóttir saman í pistil margt af því ruglaðasta sem bar fyrir augum í fjölmiðlum.
„Undanfarið hef ég haft það á tilfinningunni að samfélagið hafi sett í bakkgír. […] Ég fæ þetta til dæmis á tilfinninguna þegar Framsóknarflokkurinn er eitthvað að vasast, sendir bréf til útlanda og tilkynnir eitthvað fyrir mína hönd þvert á loforð um annað, skipar rasista í mannréttindaráð eða dregur fram áratugagamlar teikningar Guðjóns Samúelssonar til að byggja eitthvað þjóðernislegt við Austurvöll, eða vill senda alla múslíma til Sádi-Arabíu og sitthvað svona.



Fæ þetta líka á tilfinninguna þegar ég horfi á viðtöl í sjónvarpinu við fólk sem hefur í fullri alvöru áhyggjur af útrýmingu hvíta kynstofnsins og vill flokka heiminn niður í lönd eftir lit.



Svo er ég einhverra hluta vegna alltaf að sjá myndir á Facebook af veiðimönnum stilla sér upp með nýskotnum gíraffa, svona svolítið eins og safaríveiðimenn árið 1901, en kannski hefur það alltaf verið.



Ég fæ líka þessa tilfinningu um að samfélaginu fari aftur þegar ég sé fólk stofna hópa á samfélagsmiðlum til að mótmæla hinsegin fræðslu í skólum! Já, já, það er til fólk sem sér ástæðu til þess að mótmæla því. Las nokkur ummæli hlustenda útvarps Sögu þeirrar skoðunar, sem tekin höfðu verið saman á Nútíminn.is. Ég gat ekki sett þau í samhengi við árið 2015. Vildi hreinlega að ég hefði ekki lesið þau, varð bara leið og yfir mig helltist tilfinningin um eitthvað úrelt.“

Náttúran

Náttúran var enn og aftur á dagskrá. Yfirleitt var það á forsendum varnarbaráttu því sótt er að henni úr ýmsum áttum og með margvíslegum hætti. Náttúruverndarfólk stóð í ströngu við greinaskrif og fundahald.

Ólafur Arnalds prófessor við Landbúnaðarháskólann skrifaði grein vegna þeirrar ákvörðunar (nefndarinnar með furðunafnið] yfirítölunefndar að beita megi fé á Almenninga í Rangárþingi eystra. „Hinn 1. apríl 2015 var einn mesti sorgardagur í sögu náttúruverndar á Íslandi frá upphafi vega,“ segir Ólafur. Nefndin úrskurðaði semsé þann dag að leyfa mætti beit sextíu lambáa, að hámarki 180 kindur, í sumar. Einn nefndarmaður, sem er gróðurvistfræðingur, taldi þó að svæðið gæti ekki tekið við svo miklum fjölda sauðfjár og vildi takmarka beitina við tíu fullorðnar kindur með lömb.

Ólafur bendir á að neikvæð ásýnd sauðfjárbeitar bitni á sauðfjárbændum sem ekki beita á illa farið og rofið land, og hvetur til að lambakjöt sé merkt uppruna sínum. Óorðuð er sú hvatning hans að neytendur sniðgangi þá afurðir merktar sauðfjárbændum sem beita fé sínu þar sem vitað er að það veldur skaða sem tekur áratugi að bæta.

Háspennulínur hér og þar og allstaðar

Landsnet spólar af spenningi við tilhugsunina um að leggja háspennulínur yfir hálendið. Öðrum finnst sú tilhugsun ógeðfelld, óarðbær og skaðleg ferðaþjónustunni. Já eða bara fáránleg. Samtök ferðaþjónustunnar taka ekki í mál að reist verði háspennumöstur á Sprengisandi (en gefa séns á jarðstreng). Grímur Sæmundsson formaður samtakanna segir „að mikilvægi ferðaþjónustunnar í efnahagslegu tilliti væri slíkt í dag að stórar ákvarðanir er varða náttúruna sem auðlind verði eftirleiðis að taka með hagsmuni greinarinnar að leiðarljósi“. Það er mikilvægt að Samtök ferðaþjónustunnar lýsi þessu yfir og ekki amalegur stuðningur fyrir náttúruverndarsinna.

Um miðjan mánuðinn var svo haldin fjölmenn hálendishátíð gegn breytingum á rammaáætlun og hálendinu undir yfirskriftinni „Paradísarmissir“ þar sem þess var krafist að hálendinu verði hlíft. (Upptöku frá hálendishátíðinni má sjá hér.) Formaður Landverndar segir að fjöldi fundargesta sendi þau skilaboð til stjórnvalda að grafa eigi nýja tillögu um rammááætlun.

Landsnet mætir andstöðu víðar því íbúar á Völlunum í Hafnarfirði hófu undirskriftasöfnun til að mótmæla lagningu Suðurnesjalínu 2. Íbúarnir segja m.a.:
„Loftlínurnar munu að okkar mati hafa verulega neikvæð áhrif á útivist, útsýni og hljóðvist í Vallahverfinu og hafa áhrif til lækkunar fasteignaverðs og að auki festa í sessi tengivirki sem ítrekað hefur verið lofað að skuli hverfa eða minnka verulega að umfangi.“

Mengun

Loftmengun á Íslandi hefur valdið ótímabærum dauðsföllum. Sýnt hefur verið fram á tengsl svifryksmengunar og dánartíðni.
„Samsetning svifryks er nú önnur en áður. Meira en helmingur ryksins var af malbiki árið 2003. Hlutfallið var komið niður undir tuttugu prósent árið 2013. Sót vegna útblásturs hefur aftur á móti aukist og er orðið þriðjungur mengunarinnar. Bremsuborðaryk er þá meira eða 13 prósent af menguninni árið 2013 í stað tveggja prósenta árið 2003.“
Dísilbílar sóta meir en bensínbílar svo að dísilbílar á nagladekkjum eru mestu skaðvaldarnir. (Sem minnir mig á: burt með naglana!)

Í framhaldi af þessu var aldeilis uppörvandi að heyra um áhrif gufuaflsvirkjananna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.

Ragnhildur Finnbjörnsdóttir doktorsnemi í lýðheilsufræði
„hefur skoðað tengsl fjölda dauðsfalla á höfuðborgarsvæðinu við styrk brennisteinsvetnis í lofti frá Hellisheiðar- og Nesjavallavirkjunum. Niðurstöðurnar gefa til kynna að samband sé þarna á milli. Þegar brennisteinsvetnismengun jókst fjölgaði dauðsföllum. „Það sem kom sérstaklega fram var að það var marktækt samband yfir sumarmánuðina og svo fundum við einnig marktækt samband hjá eldra fólki, 80 ára og eldra. Aukningin í dauðsföllum var frá rétt tæpum tveimur prósentum meðal eldra fólks upp í fimm prósent yfir sumarmánuðina,“ sagði Ragnhildur í viðtali.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur staðfest að rannsókn Ragnhildar gefi vísbendingar um að að aukning brennisteinsvetnis í andrúmslofti geti leitt til hækkaðrar dánartíðni vissra hópa fólks á ákveðnum árstíma. Orkuveita Reykjavíkur „tekur ekki afstöðu“ til niðurstaðna rannsóknarinnar.

En svo má líka alltaf útvista menguninni.

Hvalfjörðurinn er óðum að fyllast af mengandi stóriðju, og stjórn Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð skrifaði Degi B. Eggertssyni og Reykvíkingum opið bréf, en ekki þó eingöngu til að óska Reykjavíkurborg til hamingju með umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs. Bréfið var öllu heldur skrifað til að vekja athygli Reykvíkinga á því
„að sem meirihlutaeigendur Faxaflóahafna berið þið ábyrgð á iðnaðaruppbyggingu við Hvalfjörð sem stefnir lífríki fjarðarins og lífsgæðum íbúa hans í hættu […] Umhverfisvaktin hefur vakið athygli á því að á síðustu árum hafa framleiðsluaukning Norðuráls og nýjar verksmiðjur sem rísa á Grundartanga ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum. Sú skýring er gefin að mengun af völdum hverrar verksmiðju eða framleiðsluaukningar einnar og sér sé óveruleg viðbót við núverandi mengun […] Því miður er raunin sú að allt stefnir í að áfram bætist við fleiri og fleiri verksmiðjur og aukin mengun ef haldið verður áfram að skilgreina alla nýja mengandi starfsemi sem óverulega viðbót.“
Bréfið er áhugavert aflestrar og grefur heldur undan þeirri tilfinningu að borgin, sem eigandi 75% hlutar í Faxaflóahöfnum, eigi umhverfisverðlaun skilið. Svo ekki sé nú minnst á svifrykið og brennisteinsmengunina.

Nefndir með bein í nefinu

Undir lok mánaðarins mátti lesa frétt á bb.is sem sagði frá því að skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hafi hafnað áformum Orkubús Vestfjarða um miðlun úr Stóra- Eyjavatni í Mjólkárvirkjun. Í umsögn nefndarinnar segir að nefndin taki heilshugar undir framkomnar athugasemdir um að ekki komi til greina að skerða náttúrulega fegurð Dynjanda með skerðingu á vatnasviði hans. (Mynd af fossinum fylgir fréttinni.) „Skilaboð hins almenna Vestfirðings hafa líka verið nokkuð skýr, fólk vill að Dynjandi fái að vera í friði,“ segir formaður nefndarinnar. Hinn almenni Reykvíkingur tekur undir það.

Heilbrigðisnefnd Reykjavíkur stóð líka í lappirnar þegar hún synjaði Svifflugfélagi Íslands um leyfi til að leigja svæði félagsins við Sandskeið. Þar átti að útbúa akstursbraut fyrir bílaframleiðanda svo að blaðamenn gætu reynsluekið nýjum jeppum. Svifflugfélaginu vantaði pjéning og sá sér þarna leik á borði að græða og tóku því tilboði bifreiðaframleiðandans „fagnandi þegar framleiðandinn bauð fram ríflegan fjárstyrk“. Heilbrigðisnefndin afturámóti var eitthvað að spá í vatnsbólin í Heiðmörk og telur vélknúna umferð ógn við hana. Þetta er auðvitað bara píp, því einsog allir vita trompa pjéningar hreint vatn, og þessvegna hefur Svifflugfélagið kært heilbrigðisnefndina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. En ekki hvað.

Hér er ekkert minnst á framsóknarmenn

Þessi samantekt hefði betur orðið að stökum bloggfærslum sem dreift hefði verið yfir nokkra daga. En ritstjórnarleg ákvörðun hefur verið tekin um að hlífa lesendum hvergi en koma þessum helstu aprílmálum frá og þessvegna verður hér að lokum fjallað um makrílkvótann.

Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi fjármálaráðherra byrjaði grein sína „Auðlind á silfurfati“ með þessum orðum:
„Allar viðvörunarbjöllur landsins hringja nú um að hægristjórnin sé að stíga stórt skref í að einkavæða auðlindir þjóðarinnar.“ Hún spyr hvort „hagsmunaaðilar í útgerð og ríkisstjórnin hafi fundið leið til þess að læða í gegn stórtækri breytingu á úthlutun aflaheimilda og útreikningi veiðigjalda án þess að þjóðin taki eftir því?“
Oddný ræðir einnig yfirlýstar skoðanir forseta Íslands á þjóðaratkvæðagreiðslum þegar í húfi eru auðlindir þjóðarinnar og segir að hann hljóti að bregðast við ótímabundinni úthlutun á makrílkvóta. (Glætan.)

Jón Steinsson hagfræðingur skrifaði einnig mikilvæga og harðorða grein af sama tilefni. Þar segir:

„Í makrílfrumvarpi ráðherra er ekkert ákvæði um þjóðareign kvótans né heldur um það að úthlutunin myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Þvert á móti er kveðið á um að sex ára úthlutun veiðiheimilda í makríl framlengist sjálfkrafa um eitt ár á hverju ári og að úthlutuninni sé ekki hægt að breyta nema með sex ára fyrirvara. Þetta er grundvallarbreyting […]

Með þessu frumvarpi er því stigið risastórt skref í þá átt að festa varanlega í sessi það fyrirkomulag að útgerðarmenn þurfi ekki að greiða eðlilegt leigugjald til þjóðarinnar fyrir afnot af sameign þjóðarinnar […] Það verður með öðrum orðum nánast ómögulegt að taka upp fyrirkomulag sem tryggir að útgerðarmenn greiði markaðsverð fyrir veiðiheimildir […]

Það sem meira er, ef þetta frumvarp verður að lögum verður til fordæmi um óafturkallanlega úthlutun aflaheimilda til lengri tíma en eins árs. Þetta fordæmi mun gera það auðveldara fyrir stjórnvöld að breyta úthlutun annarra tegunda á sama veg […] Þjóðin er með öðrum orðum hlunnfarin um tugi milljarða árlega […]

Nú vill ríkisstjórnin taka stórt skref í þá átt að festa enn frekar í sessi þetta ófremdarástand. Er ekki tími til kominn að landsmenn segi hingað og ekki lengra?“
Það er sannarlega ástæða til að bera ugg í brjósti verði þetta frumvarp að lögum án þess að almenningur æmti. Því þá er þessari ríkisstjórn allir vegir færir.

Efnisorð: , , , , , , ,