sunnudagur, apríl 19, 2015

Rúmgóð hornlóð í stað þröngrar og óvinsællar staðsetningar

Það er ekki oft sem ég er sammála Sjálfstæðismönnum en (í stað þess að þegja yfir því og skammast mín) skal það nú fært til bókar.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ætla að leggja til á fundi borgarstjórnar að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni verði úthlutað lóð við Mýrargötu, rétt hjá lóðinni sem hún fékk fyrir margt löngu. Sú tilhugsun að stóreflis kirkjubygging rísi á núverandi lóð rétttrúnaðarkirkjunnar (sjá mynd) hefur verið nágrönnunum og öðrum íbúum Vesturbæjar þyrnir í augum. En við gatnamót Mýrargötu og Seljavegar er hornlóð sem hefur lengi verið ómalbikað kaótískast bílastæði, engum til prýði. Nú vilja semsagt Sjálfstæðismenn að bílastæðið prýði kirkjan sem færi þar mun betur beint á móti gamla Héðinshúsinu en við bárujárnshúsin þar sem átti að reisa hana.



Rússneska rétttrúnaðarkirkjan heldur fast í lóðina sem hún fékk upphaflega úthlutað, það sé búið að „helga hana“ og þarna skuli byggja. Hingað til hafa öll mótmæli verið til einskis. Það er því ekki líklegt að þessi tillaga komi í veg fyrir að kirkjan rísi á upphaflegu lóðinni. En það má reyna.

Efnisorð: , ,