sunnudagur, mars 29, 2015

Sjá

Í góðu veðri er tilvalið að dvelja sem minnst utandyra heldur bregða sér á myndlistarsýningar einsog ég gerði í dag. Skal nú hvatt til slíkrar iðju, og bent á tvær góðar sýningar sem feministar ættu ekki að láta framhjá sér fara.

Listasafn Íslands við Fríkirkjuveg sýnir myndlist listakvenna í tilefni af hundrað ár eru liðin frá því að konur, fertugar og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi í alþingiskosningum. Sýningin, sem er í báðum sölunum á efstu hæðinni, heitir Konur stíga fram — svipmyndir 30 kvenna í íslenskri myndlist. Listakonurnar eru fæddar á tímabilinu 1823-1940 og sumar þeirra lítt þekktar, aðrar heimsfrægar og verkin eru fjölbreytt eftir því. Þetta er áhugaverð og fróðleg sýning sem allar konur þurfa að sjá (mega taka karla með sér, ég spurði).

Í Ásmundarsafni við Sigtún er sýning sem nefnist Vatnsberinn-Fjall+kona og er hún einn af fjölmörgum viðburðum sem Reykjavíkurborg stendur fyrir í tilefni afmælis kosningarréttarins.

Áður en ég fór á sýninguna áttaði ég mig reyndar ekki á hvernig Vatnsberinn tengdist kosningaafmælinu eða kvennabaráttu yfirleitt. Málið skýrðist því Vatnsberinn, sem Ásmundur Sveinsson gerði árið 1937, mun vera vatnskerling. Þetta hefði ég átt að muna frá því að Jón Karl Helgason skrifaði um höggmyndina þegar til stóð að færa hana í miðborgina þar sem hún stendur nú. En fram að því að ég las grein Jóns Karls (og greinilega eftir það í minnisleysi mínu) datt mér aldrei í hug að þetta væri kona. Voru þó konur vatnsberar í Reykjavík einsog meira segja ég vissi.

Annað sem ég vissi ekki (eða vissi einhverntímann og gleymdi aftur) var að Vatnsberinn varð „kyndilmerki á veggspjaldi kvennafrídagsins í Reykjavík 1975“ (hinsvegar mundi ég eftir Venusarstyttunni úr Lýsiströtu sem Rauðsokkur báru á 1. maí 1970). Það er því ekkert skrítið að Vatnsberinn skuli nú vera þungamiðja sýningar sem tengd er kvenréttindum.

Á sýningunni er hnífjafnt kynjahlutfall því þar eru listaverk eftir fjórar konur og þrjá karla auk verka Ásmundar Sveinssonar. Það er þó ekki kynjahlutfallið sem gerir sýninguna góða, heldur er hún fjölbreytt, fróðleg og bráðskemmtileg. Ég mæli með heimsókn í Ásmundarsafn.


Efnisorð: ,