föstudagur, mars 13, 2015

Dagur líkamsvirðingar

Á árlegum baráttudegi Samtaka um líkamsvirðingu er ágætt að skoða í hverju líkamsvirðing felst. Hún felst í því að samþykkja að ekki eru allir karlar eins í laginu og að ekki eru allar konur eins í laginu. Líkamsvirðing er að virða alla líkama jafnt, hæðast að engum þeirra og hvetja ekki fólk til að breyta líkama sínum. Síst af öllu að skammast sín fyrir sinn eigin kropp.

Þetta er samt erfiðara en að segja það. Sérstaklega síðasti parturinn. Fólk fer í megranir, ræður sér líkamsræktarþjálfara, sveltir sig, neitar sér um að kaupa föt á þennan ómögulega skrokk, og talar við aðra um hvað hann sé ljótur ýmist í heild eða að hluta. Fólk grípur til ýmissa óvandaðra meðala til að kúga líkamann til að léttast eða verða stæltari, nú síðast komst í fréttir að fólk tekur hormónalyf ætluð fólki með vanvirkan skjaldkirtil. Þetta er gert af einhverri örvæntingarfullri þrá til að líta öðru vísi út, til að geta lyft meira eða hlaupið hraðar og lengra, til að líta út fyrir að vera manneskja með líkama sem getur það sem eigin skrokkur ræður ekki við nema með bellibrögðum.

Ef við bærum virðingu fyrir líkama okkar kæmum við ekki svona fram við hann.

En við dýrkum líkama sem geta. Keppnisíþróttamenn sem meira og minna ganga sjálfir fyrir allskyns fæðubótarefni, ólöglegum og löglegum lyfjum. Frægasti hjólreiðakappinn sem þótti ofurmenni reyndist vera uppdópaður. Allan tímann sem heimsbyggðin dáðist að honum og margir vildu líkjast honum vissi hann sjálfur að það sem hann gerði var ómögulegt nema með því að svindla. Hann eins og margir aðrir íþróttamenn hafa alið á þeirri lyfjamenningu sem nær inn í líkamsræktarstöðvarnar, uppá svið þar sem fitness keppendur spóka sig og á verðlaunapall þar sem menn halda um stund á verðlaunum sem þeir eru síðar sviptir að loknu lyfjaprófi.

Við dýrkum líkama sem eru fallegir. Ekki síst þá sem er búið að breyta með skurðaðgerðum og fótósjoppi, gleymum því þó okkur sé margsagt það og -sýnt að þeir líta ekki svona út í rauninni. Litlar stelpur og litlir strákar alast upp við að fólk líti svona út, reyndar ekki mamma og pabbi en þau eru samt að reyna að bæta sig með ýmsu móti, með orkudrykkjum, andlitsförðun, hárlitun og dugnaði í ræktinni, það verða allir að reyna að bæta sig til að halda í við útlitsdýrkunina.

Ef við létum ekki alltaf svona vel að stjórn þá tækist útlitsiðnaðinum ekki að teyma okkur svona á asnaeyrunum.

Ef við vissum ekki svona vel að öldruðum er skákað útí horn á síðasta skeiði ævinnar, við oft á tíðum ömurlegar aðstæður, þá óaði okkur ekki svona við að sýna merki þess að vera að eldast.

Ef við værum ekki svona upptekin af ódauðleikanum þá sættum við kannski okkur við dauðlega, hrörnandi líkama, sem geta minna í dag en í gær.

En það er ljós punktur í þessu öllu saman (þetta var að verða mjög niðurdrepandi) því Samtök um líkamsvirðingu vinna að viðhorfsbreytingu. Húrra fyrir þeim!

Efnisorð: