fimmtudagur, mars 12, 2015

Ekkert af þessu er einkamál

Tvö frumvörp sem lögð hafa verið fyrir þingið fara ákaflega í taugarnar á mér.

Hið fyrra er frumvarpið um sölu áfengis í matvörubúðum. Eða eins og það heitir: Frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur 
ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, 
með síðari breytingum (smásala áfengis).

Ég skrifaði langan pistil um áfengissölufrumvarpið í haust en vil þó bæta við, fyrir fróðleiksfúsa lesendur, slóðum á athugasemdir Landlæknis, Barnaheilla og stjórnar Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, sem eru einróma um að það sé vond hugmynd að selja áfengi í matvörubúðum. Þeir einu sem eru hlynntir eru frjálshyggjumenn og þeir sem hyggjast græða á því að selja áfengi, fyrir utan kannski fólk sem á við drykkjuvanda að stríða. Þurrir alkar, fólk sem drekkur hóflega (og vill góða þjónustu í Ríkinu), og allt heilbrigðis- og velferðarbatteríið er á móti frumvarpinu.

Samt eru alltaf einhverjir (frjálshyggjuguttar) sem gera grín að „forræðishyggjunni“ og finnst hlægilegt að hafa áhyggjur af áhrifunum sem auðveldari aðgangur að áfengi hefur á börn. Nei, þau verða ekki alkar af því að reka augun í flösku í matvörubúðinni, en með því að sjá vínflöskur eða bjórdósir eins og hverja aðra nauðsynjavöru í hvert sinn sem farið er í búðina er þeim seld sú hugmynd að neysla áfengis sé eitthvað sem enginn getur verið án. Það bætir ekki úr skák að minnihluti allsherjar- og menntamálanefndar, þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Willum Þór Þórsson, hefur lagt til að
„þau ákvæði er lúta að banni við áfengisauglýsingum verði endurskoðuð“.
Þarna er nú heldur betur opnað á þann möguleika að áfengi verði auglýst í sjónvarpi og bíóhúsum, en auðvitað bara „óvart“ á sýningum ætluðum börnum og unglingum.

Hitt frumvarpið sem fer í taugarnar á mér snýr að því sem enginn getur verið án (nema rétt á meðan nafnlausar bloggfærslur eru skrifaðar).

Mannanafnafrumvarpið vegur að sérstöðu íslenskrar nafnahefðar. Það er ekki nóg að færa þjóðmenninguna í Stjórnarráðið ef það á að rústa henni á þingi. (Sem ég trúi reyndar ekki að verði gert.) En frumvarpið snýst um að leyfa upptöku ættarnafna og leggja niður mannanafnanefnd svo allir geti klínt hvaða ónefnum sem þeim tekst að kokka upp á börnin sín. Við hin megum svo bara giska á hvernig nöfnin beygjast, ekki verður mannanafnanefnd til að sjá til þess að nöfn fylgi íslenskum beygingarreglum, eða innihaldi stafi sem eru í íslenska stafrófinu.

Mér er sérlega illa við tilhugsunina að taka almennt upp ættarnöfn því ef það er eitthvað sem er séríslenskt í mínum huga þá er það sá siður að kenna börn við föður sinn eða móður. En nýjungagjarnir Íslendingar væru vísir með að taka upp ættarnöfn í stórum stíl (og búa til ýmis ónefni þar) og rústa þessum góða sið á skömmum tíma.

En fari frumvarpið í gegn og allt verður leyfilegt bíð ég spennt eftir að staðgöngumæðrun verði leyfð líka. Þá ætla ég láta einhverja góðviljaða konu ganga með barn fyrir mig, því mig langar að eignast dóttur og nefna hana Böðvar. Ég hlýt að mega það, loksins þegar ég verð frjáls undan allri þessari forræðishyggju.

Enda þótt ég sé sannfærð um að verði þessi frumvörp að lögum hafi þau hvort með sínum hætti skaðleg áhrif, þá á ég erfitt með að trúa að þingið samþykki þau. Leyfi mér samt að hafa áhyggjur. En í dag kom upp grafalvarlegt mál af allt öðrum toga. Þó ekki á þingi. Það er reyndar það sem er alvarlegast við málið, að það fékk ekki þinglega meðferð og var ekki rætt hjá utanríkismálanefnd.

Að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra (og sérlegur sendimaður Skagfirska efnahagssvæðisins) hafi þegjandi og hljóðalaust slitið aðildarviðræðum við Evrópusambandið er auðvitað algjört hneyksli. Afhverju mátti ekki ræða þetta í þinginu og í utanríkismálanefnd? Þykir þeim háu stjórnarherrum svo gott fordæmið sem fyrirrennarar þeirra á valdastóli, Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson, settu þegar þeir skráðu Ísland á spjöld sögunnar sem stuðningsaðilar við stríð? Þá sniðgengu þeir alveg þingið og utanríkismálanefndina og ákváðu þetta bara sjálfir uppá sitt eindæmi. Einsog svo margt annað.

Það er skammarlegt að ríkissjórn Íslands hafi ekkert lært af sögunni. Og alveg sérstakt áhyggjuefni.

Efnisorð: , , , , , , ,