mánudagur, febrúar 16, 2015

Foie gras, taka tvö

Fyrir tæpur tveimur mánuðum gerði ég könnun á því hvaða veitingastaðir seldu rétt sem kallast foie gras en uppá íslensku gæsa- og andalifur, og komst að því að því að allavega fjórir veitingastaðir á landinu seldu réttinn (ég lagði ekki á mig að lesa matseðla þeirra allra, enda veit ég ekki nöfn allra veitingastaða landsins). Til upplýsingar fyrir lesendur sem ekki vita hvernig farið er að fita lifur andfuglanna þá eru mjög óhugnanleg myndbönd hér og hér, þeim er nánar lýst í pistlinum sem ég skrifaði undir titli sem lýsir skoðun minni á foie gras.

Það sem ég rakti ekki í pistlinum var sagan af því þegar ég hringdi á þessa fjóra veitingastaði. Ég tók ekki símtölin upp og get því ekki haft orðrétt eftir rekstrarstjórum, yfirkokkum eða eigendum staðanna (eftir því sem við á, ég man ekki nákvæmlega hver gegndi hvaða starfi hvar) en ég skrifaði hjá mér punkta. Og ef ég les rétt úr skriftinni minni þá voru viðbrögð forsvarsmanna veitingahúsanna á þessa leið.

Veitingastaðurinn Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri
Þetta var tekið fyrir á fundi vegna frétta [um að hamborgarastaður í Reykjavík hefði hætt að selja foie gras], er í athugun.
Viðkomandi var jákvæður á að hætta með réttinn.

Hereford steikhús
Eftir að hafa haldið mikla lofræðu um að foie gras væri ekta franskt lostæti skildist viðmælandanum loks hver tilgangur minn var með símtalinu og varð mjög pirraður. Hann sagðist ekki hafa heyrt umræðuna og aftók að taka réttinn úr sölu.

Hótel Holt
Við seljum mikið af þessu, fólkið vill þetta og yrði fyrir vonbrigðum [ef foie gras yrði tekið af matseðlinum].
Viðkomandi vildi einnig ræða kjúklinga og hvali út frá andstöðu við eldi og veiði, sennilega sér til málsbóta.
Niðurstaða: Ekki verður hætt að selja foie gras.

Snaps
Ætlaði að koma þessu á framfæri [við eigendur/yfirkokk/rekstraraðila, man ekki].
Vildi vita nafn mitt [tortryggnin var gagnkvæm og ég neitaði].

Kopar
Vissu ekki um myndböndin [sem sýna hvernig farið er með fuglana] ætla að skoða málið.
Mjög jákvæð á að endurskoða [hvort rétturinn verði hafður á matseðlinum].
Ánægjulegasta símtalið.


Beið ég nú átekta þar til fyrir nokkrum dögum þegar ég þóttist viss um að nýir matseðlar hlytu að hafa leyst af jóla- og áramótamatseðlana. Niðurstaða mín eftir að hafa skoðað nýju seðlana í von um breytingar er eftirfarandi.

Það olli mér talsverðum vonbrigðum að sjá að Hótel KEA Múlaberg hefur foie gras á matseðlinum sem gildir frá 15. janúar.

Það kom mér ekki á óvart að Hereford er enn með foie gras á matseðlinum.

Heldur ekki hvernig staðan var hjá Hótel Holti, sem kallar nú andalifrina duck liver (sami réttur um jól var sagður innihalda foie de canard).

Snaps selur enn foie gras. Það er svekkjandi. Er þetta ekki hipsterastaður? Eru hipsterar almennt spenntir fyrir dýraafurðum sem eru framleiddar með því að misþyrma dýrum?

En HÚRRA! Kopar hefur ekki foie gras eða neina alifuglalifur á sínum matseðli. Vonandi er það framtíðarstefna þeirra.


Tilkynnist að ég mun aldrei snæða á Snapsi, Hereford, Holtinu eða á Múlabergi á Akureyri. Eg mun leggja hart að þeim sem kunna að spyrja mig um góða veitingastaði að fara ekki þangað.

Kopar hinsvegar, það er staður sem er kominn á dagskrá hjá mér.

Efnisorð: ,