mánudagur, nóvember 24, 2014

Foj!

Aðeins einu sinni hef ég setið til borðs með fólki sem fékk sér foie gras. Ég spurði hvort þau vissu hvernig farið væri með gæsina til að fita lifur hennar og þau játtu því og brostu blítt meðan þau gæddu sér á réttinum. Ekki hvarflaði að mér að fylgja fordæmi þeirra en lét málið niður falla. Reyndi bara að einbeita mér að mat mínum.

Fjölmiðlar fjölluðu um það í dag að Hamborgarafabrikkan væri hætt að selja andalifur — að einhverju leyti að áeggjan dýravinarins Sæunnar Ingibjargar Marinósdóttur — en aðallega vegna þess að það var ekki nógu mikill gróði af sölunni. Með fréttunum (ruv.is, vísir.is, dv.is) fylgdu myndbönd sem sýndu hvernig farið er með endur og gæsir til að búa til hið eftirsótta foie gras. Í stuttu máli sagt er það hryllilegt, aðbúnaður þeirra er hræðilegur, í stað þess að þeim sé slátrað með mannúðlegum hætti er stendur dauðastríð þeirra lengi, og svo er það auðvitað hin viðbjóðslega aðferð sem notuð er til að troða gríðarlegu magni af mat ofan í kokið á þeim - með vélknúinni pumpu — til að lifrin í þeim stækki sem hraðast og fitni sem mest. Og það mega veslings skepnurnar þola þrisvar til fjórum sinnum á dag þar til lifrin er orðin tíu sinnum stærri en eðlilegt er.

Þetta eru myndbönd sem allt fólk verður að sjá, og þó það sé ástæða til að vara viðkvæmt fólk við þá verður viðkvæma fólkið líka að sjá þetta.

Hér er myndband af meðferð á öndum, fóðrun þeirra (ítroðslunni) og hræðilegan aðbúnað, þulur er Kate Winslet

Annað myndband (önnur útgáfa þess var á síðu DV) þar sem sýnd er sama meðferð á gæsum, aðbúnaður þeirra og hvernig þeim er slátrað, þulur er Roger Moore.

Það er auðvelt að vera á móti framleiðslu og sölu á anda- og gæsalifur án þess að hafa séð myndirnar — en eftir að hafa séð þær er aldrei hægt að sitja aftur til borðs með neinum sem finnst í lagi að borða foie gras.

Enn betra er þó að sniðganga veitingastaði sem selja anda- og gæsalifur. Ég fletti upp um það bil þrjátíu veitingastöðum og komst að því að fimm þeirra hafa foie gras á matseðlinum. Ég vildi að ég gæti þarmeð fullyrt að enginn hinna seldi anda- eða gæsalifur en þar sem matseðlar eru breytilegir þá vil ég ekki hvítþvo neinn þeirra. En þessir fimm sem kaupa, framreiða og hagnast á sölu á anda- og gæsalifur eru:

Hereford steikhús, Laugavegi 53, sími 5113350
(netfang ekki gefið upp en hægt að skrifa þeim á síðunni)

Hótel Holt sími 5525700
(sömu aðilar reka Viðeyjarstofu )
gallery@holt.is

Hótel KEA, Akureyri, sími 4602020
keahotels@keahotels.is

Kopar, Geirsgötu 3, sími 5672700
info@koparrestaurant.is

Snaps, Óðinstorgi, sími 5116677
snaps@snaps.is

Lesendur átta sig líklega á afhverju ég læt upplýsingar fylgja um hvernig er hægt að hafa samband við þessa veitingastaði.

___
Viðbót: Tveimur mánuðum síðar voru matseðlar sömu veitingastaða skoðaðir og í ljós kom að Snaps, Hereford, Holtið og á Múlaberg í KEA hótelinu á Akureyri selja enn þrautpínda alifuglalifur.
Kopar hinsvegar, það er staður sem virðist hafa séð að sér (með því verður fylgst í framtíðinni) og miðað við matseðilinn í febrúar 2015 er ekkert foie gras lengur selt þar. Húrra fyrir því!

Efnisorð: ,