fimmtudagur, nóvember 06, 2014

Úrslit þingkosninga í Bandaríkjunum, Láki nær völdum

Veslings Obama. Nú er hann kominn í þá stöðu að engin mál sem hann leggur fram munu ná fram að ganga nema að hann gangi að einhverjum afarkostum hins nýja þingmeirihluta repúblikana. Þeir munu eflaust stilla honum upp við vegg og heimta að hann pakki heilbrigðisumbótunum, sem hann kom loksins í gegn, niður í skúffu. Þeir munu sækja að honum þannig eða með eigin lagafrumvörpum um enn minna eftirlit með vopnakaupum, enn verri aðgang að fóstureyðingum og ógilda hjónabönd samkynhneigðra. Og þá þarf Obama að vega og meta hvort kemur verr út fyrir hann þegar upp er staðið, því það er nú einu sinni svo með stjórnmálamenn sem komast til æðstu metorða að þeim er afar umhugað um hvernig verður skrifað um þá í sögubækur framtíðarinnar. Og orðstír Obama sem 44. forseti Bandaríkjanna gæti beðið mikinn hnekki ef hann bakkar eða lúffar fyrir repúblikönum í málum kjósendur hans settu á oddinn og varða heilbrigði og mannréttindi.

Það er einmitt vegna áherslu Obama á þessi mál sem ég hef enn talsvert álit á honum og tel hann meðal bestu forseta sem hafa setið í Hvíta húsinu. Hitt er svo auðvitað galli — en það er galli á öllum forsetum Bandaríkjanna — að Obama hefur reynst stríðsglaðari en hann gaf sig út fyrir að vera þegar hann lofaði að draga herliðið frá Írak. Hann gerði það reyndar og hefur meirasegja lýst andúð á Ísrael. Þá reyndi hann að loka Guantanamo en repúblikanar stoppuðu hann af með það í þinginu. Minna veit ég um efnahagsmálin en kjósendur Obama og demókrataflokksins virðast hafa verið óánægðir með þau, og hafa þá líklega verið búnir að gleyma hverskonar ástand blasti við þegar Obama tók við völdum í janúar 2009. Það var auðvitað fyrirsjáanlegt að honum myndi ekki takast allt sem hann stefndi að, hann tók við þegar efnahagsástandið í heiminum var á heljarþröm. Og flokkur hans uppskar óvinsældir minnislausra kjósenda. Við könnumst við það.

En það er ekki bara óánægja með Obama sem olli fylgishruni demókrata. Kjörsókn var léleg. Það hjálpaði ekki til að andstæðingar Obama komu því svo fyrir að kjósendur sem líklegastir hafa verið til að kjósa demókrata (innflytjendur, fólk af afrískum uppruna, konur, háskólafólk) hafa lent í örðugleikum með að kjósa. Kjörstaðir voru tildæmis færðir lengst frá háskólalóðum. Svo hefur linnulaus áróður Fox sjónvarpsstöðvarinnar gegn Obama haft sitt að segja og ekki má gleyma því að margir Bandaríkjamenn geta allsekki sætt sig við að forsetinn sé ekki hvítur. Ég las einhverstaðar athugasemd við frétt um niðurstöður kosninganna sem hljóðaði á þá leið að „andúð hvítra“ væri sigurvegari kosninganna.

Obama á þann möguleika að sniðganga þingið með því að stjórna með tilskipunum en segist vilja fara sáttaleiðina og ná samningum við repúblikana um einstök mál. Þeir láta allavega í það skína, hann og repúblikaninn Mitch McConnell, tilvonandi forseti öldungadeildarinnar, svona fyrsta kastið. McConnell hefur hinsvegar áður sagt að hann ætli að ónýta stefnumál Obama og neyða hann til að bakka með heilbrigðiskerfisumbæturnar. Við þekkjum það hér á landi að það er lítið að marka ófyrirleitna stjórnmálamenn á borð við McConnell þegar þeir segjast ætla að vinna með stjórnvöldum; við munum þegar Jóhanna og Steingrímur voru stoppuð af með mörg stefnumál sín og stjórnarandstaðan með núverandi ráðamenn í broddi fylkingar hegðaði sér einsog Láki jarðálfur.

Veslings Obama. Og veslings landar hans sem sitja uppi með þetta ástand.



Efnisorð: , , , ,