sunnudagur, nóvember 02, 2014

Ætli Illugi setji það á fjárlög?

Ríkissjónvarpið sýnir í kvöld þriðja þáttinn af Downton Abbey en norska sjónvarpið þann fimmta. Í gær sýndi sænska sjónvarpið fjórða þáttinn. Sjónvarpsstöðvar keppast semsagt um að sýna þessa vinsælu sjónvarpsseríu eins og margar aðrar sem eru stundum búnar í einu landi þegar næsta land byrjar að sýna þær, eða eins og í tilviki Downton Abbey hjá norrænu sjónvarpsstöðvunum, að þáttaröðin er mislangt komin í hverju landi.

Af þessum þremur norrænu sjónvarpsstöðvum sem hér eru taldar skara Svíar framúr með skemmtilega nýbreytni. Í beinu framhaldi eftir að sýningu hvers þáttar af Downton Abbey lýkur er stuttur spjallþáttur þar sem þrír gestir auk þáttastjórnandans ræða það sem fram fór í þættinum. Þetta þykir mér alveg stórsnjöll hugmynd og fylgist hugfangin með enda þótt ég skilji ekki nema hálft orð í sænsku.

Ég hef ekki hugmynd um hvort Svíarnir hafa gert þetta áður en þessi þáttaröð af Downton Abbey er sú fimmta í röðinni og því alveg ljóst að hún á dyggan aðdáendahóp og margir áhorfenda hafa ánægju af að ræða þættina. Leshringir hafa löngum sinnt ræðnum lestrarhestum og það er ekkert skrítið að Svíar skuli kalla þáttinn sinn sjónvarpshringinn (s. TV-cirkeln). Búningadrama á borð við Downton Abbey er auðvitað endalaust hægt að ræða, útfrá búningunum sjálfum og húsmunum, út frá persónum og tengslum þeirra innbyrðis en líka þroska hvers og eins innan þáttaraðarinnar, og svo tíðaranda og tengingu við sögulega atburði, svo fátt eitt sé nefnt af því sem eflaust hefur borið á góma hjá Svíunum. Þetta er heldur ekkert leiðinlegt sjónvarpsefni, stundum er spilað stutt atriði úr Downton Abbey til að hnykkja á einhverju sem kemur fram í spjallinu.

Reyndar eru leshringir og annað spjall um bókmenntir alls ekki leiðinlegt sjónvarpsefni. Norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafa sýnt allmarga slika þætti (ég rugla þeim saman og hver er sýndur hvar), allt frá virðulegum sjónvarpsumræðum þar sem spekingar spjalla til leshringja þar sem fyrrum fíklar, sem aldrei hafa lesið bók fram að því, mæta í athvarf til að ræða bækur og draga ekkert undan ef þeim líkar eða líkar ekki bókin.

Ekkert svona sýnir Ríkissjónvarpið. Menningarþættir eru fáir og fátæklegir, myndlist fær nánast aldrei umfjöllun (útvarpið hefur séð um þá hlið enda myndlist líklega of myndræn fyrir sjónvarpið) og það hvarflar örugglega ekki að neinum að það gæti verið sjónvarpsefni að fólk sitji og tali um uppáhaldssjónvarpsþáttinn sinn. Eða bara sjónvarpsþætti yfirleitt. En væri ekki áhugavert fyrir okkur að fylgjast með (eða taka þátt í) umræðum um dönsku þættina 1864? Þar er nú aldeilis margt að ræða.

Við sem fyrrum nýlenduþjóð Dana ættum að hafa sérstakan áhuga á stríðsbrölti Dana fyrr á tímum. En við sýnum stríðum Dana lítinn áhuga umfram það sem segir í ágætri bók að Íslendingar hafi átt að „láta af hendi allan eir og kopar handa konúnginum, af því það þurfti að endurreisa Kaupinhafn eftir stríðið“ (úr Íslandsklukkunni).

Og í framhaldi af því: hvar eru allir íslensku sjónvarpsþættirnir með leshringum sem ræða hverja einustu bók Nóbelsskáldsins í þaula? Með og án sérfræðinga, úr ýmsum kimum samfélagsins. Þannig sjónvarp hlýtur að vera ódýrt í framleiðslu og ég er varla ein um að vilja horfa á fólk tala um bækur. Nú eða sjónvarpsþáttaraðir, helst á tungumáli sem ég skil.

Efnisorð: ,