miðvikudagur, október 29, 2014

Daglegt áreiti sem verður hversdagslegt en aldrei ásættanlegt

Myndband af konu sem gengur um stræti New York borgar og verður fyrir áreiti frá fjölda karlmanna hefur vakið athygli. Flestu fólki þykir óþægilegt að sjá myndbandið og finnst óþolandi að konan geti ekki gengið um óáreitt. En svo virðist sem slík afhjúpun á hegðun karlmanna veki upp álíka úlfúð og þegar tekin eru saman ummæli karla um konur og birt undir heitinu Karlar sem hata konur. Samkvæmt frétt Vísis hefur rignt óbótaskömmum yfir konuna á netinu (hvort sem hún nú les umsagnirnar um sjálfa sig eða ekki) og henni er hótað öllu illu. Við könnumst við það líka.

Myndbandið minnti mig á breska vefsíðu sem var sett upp í apríl 2012 og heitir Everyday Sexism. Konur voru hvattar til að senda inn sögur af kynferðislegu áreiti eða mismunun sem þær urðu fyrir, öllum þessum litlu athugasemdum um útlit, nettu niðurlægingunni og óumbeðna káfinu. Þessum hversdagslegu upplifunum kvenna sem eru ekki beinlínis tilefni til að kæra til lögreglu en gera konum lífið leitt. Og sögum rigndi inn. Flestar voru stuttar og hnitmiðaðar oft komu þær gegnum Twitter, sumar langar og sögðu einn atburð í smáatriðum eða margir atburðir voru sendir inn í einni textahrúgu. Erfitt var að fylgjast með hvaðan sögurnar voru, stundum var það tekið fram en oftar ekki. (Ég sé að búið er að bera kennsl á sögur frá 18 löndum, miðað við flöggin sem eru efst á forsíðu: Frakkland, Þýskaland, Holland, Portúgal, Rússland, Spánn, Bretland, Bandaríkin, Kanada, Nýja Sjáland, Austurríki, Argentína, Ítalía, Ástralía, Brasilía, Suður-Afríka, Danmörk, Moldóvía, og auk þess sögur kvenna sem eru flóttamenn). Ég fylgdist með næstum frá byrjun og ætlaði að lesa allar sögurnar en áður en varði bárust þær svo ört í pósthólfið mitt að ég náði ekki að lesa nema lítið brot (veit ekki hve margar), nokkrar á dag en ólesnu sögunum fjölgaði þar til ég gafst upp.

Wikipedia segir að í desember í fyrra hafi sögurnar verið orðnar 50 þúsund. Eitthvað hefur hægt á streymi af sögum inn á síðuna, sú síðasta barst fyrir rúmum mánuði, en sem stendur á ég ólesnar 27.258 sögur í pósthólfinu mínu. Ég hyggst eyða þeim öllum þegar ég hef gert örstutta grein fyrir helstu niðurstöðum mínum útfrá þeim sögum sem ég þó las.

Götuáreiti eins og það sem sýnt var í myndbandinu frá New York er gríðarlegt vandamál víða um heim. Á Íslandi kemur veðráttan líklega í veg fyrir að slíkt áreiti hafi orðið vinsæl dægradvöl karlmanna, þótt þeir leggi sitt af mörkum á björtum sumarnóttum þegar þeir eru drukknir. En margar breskar konur (og frá fleiri löndum hugsanlega, ekki tóku allar fram hvaðan þær væru) sögðu að þær hefðu allt frá barnsaldri sætt stöðugum athugasemdum, hrópað væri að þeim og þær niðurlægðar á ýmsa lund, jafnvel káfað á þeim. Þetta gerðist þegar þær gengu í skólann í merktum skólabúning svo ekki fór á milli mála að þær voru börn. Ekki minnkaði áreitið þegar þær eltust, og sögðu konur að karlar í byggingarvinnu væru atkvæðamestir í að hrópa á konur en einnig voru karlkyns ökumenn drjúgir að skrúfa niður rúðuna til að æpa kynferðislegar athugasemdir á konur, jafnvel hjólamenn sáu sig knúna til að nota tækifærið til að ausa kynferðislegum svívirðingum yfir konur þegar þeir geystust hjá. Konurnar voru reiðar yfir þessari hegðun karlanna en vanmáttugar að stöðva þá nema í undantekningartilvikum.
„Á heimleið í dag, 6 blístur, 2 bílflaut og eitt skipti reynt að káfa á mér.“ (Jessica, 17.2.2013)
Vitnisburðir um þessa hegðun karla komu frá ótal konum þannig að það eru ekki bara ofurglæstar konur eða konur sem klæða sig sjúklega glennulega sem bjóða uppá þetta (einsog sagt er), heldur er nóg að vera kona á almannafæri til að karlmenn upphefji raust sína. Og konurnar, hvort sem þær voru fullorðnar eða voru að segja frá því sem kom fyrir þær á barnsaldri, fengu iðulega þau svör frá ættngjum sínum og vinum ef þær sögðu frá hve illa þeim liði með þetta, að þær ættu að vera ánægðar með að þykja aðlaðandi. (Konur sem ekki þykja nógu aðlaðandi í augum karla urðu líka fyrir áreiti á götum úti en það var þá í formi ókvæðisorða sem dynja á þeim þar sem útliti þeirra var hallmælt.) En eins og ein konan sagði:
„Ég var ráðvillt og mér fannst þetta óþægilegt og niðurlægjandi, en líðan mín var ekki bara einhver aukaverkun af því sem hann sagði og gerði, heldur var tilgangur hans að láta mér líða þannig.“ (Eleanor, 19.3.2013)
Í lestum virðist vinsælt hjá körlum að káfa á konum, glápa á þær, gera þeim ýmis tilboð. Það er ekki eins vinsælt hjá konunum sem fyrir því verða, þær eru kannski á leiðinni í vinnuna og eiga von á að þurfa að þola þessa hegðun tvisvar á dag alla starfsævina. Það er ekki beinlínis upplífgandi.

Eflaust voru flestar sögurnar breskar en Bretland kom allavega mjög illa út, eða öllu heldur breskir karlmenn. Furðu margar sögur voru um samskipti kvenna við fasteignasala sem virtu þær ekki viðlits ef þær skoðuðu íbúðir í fylgd með karlkyns maka sínum. Þeir töluðu bara við karla um svo mikilvæg viðskipti. Einu gilti þó konurnar reyndu hvað þær gátu að lýsa áhuga og koma með spurningar sem máli skipta, þá sneri fasteignasalinn sér bara því einbeittari að karlmanninum og svaraði honum. Sama var uppi á teningnum ætlaði kona sér að kaupa bíl, þá var talað við nærstadda karla og ef konan kom ein í bílakaupahugleiðingum, og þetta átti líka við um fasteignakaup, þá bauð sölumaðurinn konunni að koma seinna „með eiginmanninn með sér“.

Margar margar konur ræddu kynferðislegt áreiti á vinnustöðum. Yfirmenn sem káfuðu og klipu, buðu í glas eftir vinnu til að ræða launahækkanir eða jafnvel helgarferðir, og sögðu þeim hvernig þær ættu að klæða sig til að ganga í augun á þeim eða viðskiptavinunum.

Nauðgunarbrandarar á vinnustað, á netinu þar sem karlkyns vinir senda slíka brandara til vinkvenna sinna, það er áreiti sem margar kvennanna verða fyrir. Margar segja frá nauðgunum og nauðgunartilraunum í fortíð eða nýlega. Og margar segja frá því að þær sem unglingar (sumar þær sem senda inn sögur eru unglingar) verða fyrir gríðarlegum þrýstingi að sofa hjá strákum sem þær vilja ekki sofa hjá eða vilja ekki sofa hjá strax eða ekki með þeim hætti sem strákurinn vill. Og þegar hver einasti strákur sýnir þessa sömu framkomu, og segir stelpum upp sem ekki vilja það sem heimtað er af þeim, þá verða þær mjög fljótt lúnar á þessum sífelldu átökum.

Þetta er auðvitað ekkert bara í útlöndum. Hér í feministaparadísinni (lesist með hæðnisglotti) heyrir sumt af þessu kannski sögunni til (ég sæi íslenska fasteignasala í hrönnum hunsa konur í íbúðaleit) en allsekki allt. Nauðganir, nauðgunarbrandarar, kynferðislegt áreiti á vinnustöðum, káf á skemmtistöðum, þrýstingur um að stunda kynlíf, allt þekkjum við það hér.

Hér einsog annarstaðar eru konur í þjónustustörfum, sérstaklega þær sem starfa á veitingastöðum, útsettar fyrir kynferðislegri áreitni. Þær eru líka endalaust krafðar um að vera glaðlegar með einfaldri skipun: Brostu! Fátt er jafn illa til þess fallið að kalla fram bros eða jákvæðar hugsanir.

Íslenskir karlmenn eru líka allmargir einsog kynbræður þeirra erlendis mjög uppteknir af því að rakka niður hverja þá konu sem talar opinberlega fyrir feminisma og gegn kvennakúgun. Það er að segja þegar þeir eru ekki að segja konum að þær misskilji hvað er kúgun, hvað er ógn. Það viðhorf að konur eigi að taka kynferðislegu áreiti sem hrósi má lesa í athugasemdum við fréttina af myndbandinu frá New York og sýnir að íslenskir karlmenn eru fjarri því að átta sig eitthvað betur á því hvað er óásættanleg hegðun en bandarískir karlmenn — eini munurinn felst í því að þeir hafa ekki tækifæri til þess á ísaköldu landi.

__
Viðbót: Herdís Helgadóttir segir frá viðskiptum sínum við tryggingasölumann sem afsannar orð mín um að slík hegðun karla heyri kannski sögunni til hér á landi.

Efnisorð: , , ,