fimmtudagur, október 16, 2014

Ameríkanseringin

Ég man þá tíð að við hlógum að Ameríkönum. Þeir voru svo ógurlega feitir, með hamborgararassa! Þeir voru svo heimskir, vissu ekkert hvar Evrópa var og vissu varla hver var forseti landsins. Þetta kom fram í könnunum og í sjónvarpsþætti Jay Leno gerði hann útá heimsku vegfarenda sem vissu sjaldnast neitt um neitt. Og svo voru Ameríkanar alltaf að fara í mál yfir öllu og engu. Ef þeir settu köttinn í örbylgjuofn heimtuðu þeir skaðabætur af örbylgjuofnaframleiðandanum fyrir að vara sig ekki við að kötturinn gæti drepist (flökkusagan er alveg örugglega amerísk líka). Til þess að forðast skaðabætur settu framleiðendur sportbíla miða á mælaborðið sem sagði að ef þessum bíl væri ekið hratt væri hætta á slysi. Eflaust var það eftir eitthvert skaðabótamálið sem þeir sáu framá að svona hallærisleg tilkynning væri betri en standa í sífelldum dómsmálum og greiða skrilljónir í skaðabætur í hvert sinn sem einhver aulinn klessti bílinn sinn. Líklega eru allar þessar furðulegu viðvaranir sem lesa má á umbúðum (sbr. plastpoka að þeir séu ekki leikföng fyrir börn: hélt það í alvöru einhver?) afleiðing af því að Ameríkani fór í skaðabótamál.

Við höfum ekki lengur efni á að hlæja að Ameríkönum. Of hátt hlutfall íslensku þjóðarinnar mælist sem of þung til að við getum gagnrýnt vaxtarlag annarra. Íslendingar eru síst betur upplýstir en Kanarnir, eins og sjá mátti í þættinum Áttan þar sem tekin voru viðtöl við unglinga sem vissu ekkert hver væri forseti eða forsætisráðherra eða neitt annað. Ekki bæta 'virkir í athugasemdum' úr skák hvað það varðar. Varla er þó fólk að verða sér úti um aukakíló (þótt segja megi að við höfum tekið upp mataræði og neysluskammta eftir amerískri fyrirmynd)eða ræktar með sér fávisku bara til að verða einsog Ameríkanarnir. Aftur á móti virðist sem fjölgun skaðabótamála eigi sér beina fyrirmynd frá Ameríku.

Ég held að nýjasta fréttin af furðulegu skaðabótamáli sé um Svein Andra Sveinsson lögmann sem fékk sér lögmann til að krefjast 10 milljóna af DV fyrir að fjalla um einkalíf sitt, og ef hann (hér er átt við fyrri lögmanninn) fær ekki borgað ætlar hann að höfða dómsmál. (Spurning auðvitað hvort DV borgar eða Sveinn Andri heldur fast við kröfuna nú þegar DV hefur nýja stjórn og eigendur).

Meðlimir (eða „meintir“ meðlimir) glæpasamtaka hafa farið í skaðabótamál fyrir „ólögmæta handtöku“, meiðyrði um að þeir séu tengdir glæpasamtökum, eða fyrir að sitja í gæsluvarðhaldi grunaðir um aðild að glæp.

Gunnar í Krossinum fór í meiðyrðamál — ekki við konurnar sem ásökuðu hann um kynferðisofbeldi heldur talskonur þeirra.

Og Gillz fór í meiðyrðamál vegna þess sem sagt var um hann á netinu. Sjálfur hafði sagt svívirðilega hluti um nafngreindar konur sem þó fóru ekki í mál við neinn af hans fjölmörgum en öllum jafnlélegum karakterum.

Sömuleiðis fór fjölskyldan í Aratúni (sem allir myndu vilja hafa að nágrönnum) í mál við allt og alla sem sögðu eitthvað um þau á netinu. Það er nefnilega í lagi að hegða sér eins og fáviti, það má bara enginn segja að þú hagir þér eins og fáviti. Eða það virðist vera skilningur þeirra.

Stundum verður ekkert úr málsókninni heldur eru eintómar hótanir. Oft sér þetta fólk fjárvon í því að lögsækja einhvern fyrir að segja eitthvað um það, eða ef það hefur átt í útistöðum við lögregluna að lögsækja hana eða ríkið ef ekki tekst að sanna sök þeirra. Aðallega er þetta þó þöggunartaktík.

Augljóslega þykir mér ekki mikið koma til ofangreindra eða þeirrar áráttu að fara í mál við allt og alla. En þegar ég heyri um þessar kærur allar verð ég sífellt ánægðari með að skrifa undir nafnleynd. Annars gæti Framsóknarflokkurinn í heild sinni og Sjálfstæðisflokkurinn sömuleiðis rúið mig inn að skinninu, og þyrftu ekki fjárlög til.

Efnisorð: , , , ,