miðvikudagur, október 08, 2014

Er selt inná þennan sirkus?

Er ekki hægt að hafa beina útsendingu frá réttarhöldum yfir Sigurjóni Þ Árnasyni fyrrum Landsbankastjóra? Það væri hægt að nota Alþingisrásina í það, og yrði ágæt tilbreyting frá því að fylgjast með þruglinu þar á bæ. Þá er nú skemmtilegra að sjá gullætuna Sigurjón líkja sér við venjulegt fjölskyldufólk. Blásaklaust fjölskyldufólk þar að auki.



(Myndin tengist ekki efni bloggfærslunnar beint)

Þykist Sigurjón vita eitthvað um venjulegt fjölskyldufólk, hvað það brallar og hvernig því líður?

Það er reyndar til fjölskyldufólk um allt land, og jafnvel í öðrum löndum, sem þarf enn að líða fyrir það sem Landsbankinn undir stjórn Sigurjóns var að bralla, en það má líklega ekki minnast á það, nóg hefur blessaður sakleysinginn þurft að kveljast samt. Verjandinn hans hefur meira segja sagt að Sigurjón hafi sætt andlegum pyntingum með öllum þessum ásökunum.

Merkilegt annars að ég finn ekkert um eldræðu Sigurjóns hina síðari á vef DV í dag, og hefði ég þó haldið að þar á bæ þætti hún uppsláttarefni. En kannski hefur nýi eigandi DV, þessi sem situr Sigurjóni á hægri hönd og skrifar um andlegar pyntingar, eitthvað með það að gera. Vefur Ríkisútvarpsins og Vísir hafa sannarlega ekki látið sitt eftir liggja í umfjöllun um þetta skuespil. En nú er gott fyrir Sigurjón að Sigurður G hafi komið DV í þá stöðu að geta ekki fjallað um mál sem varðar eigendur þess (ef það er þá ástæðan fyrir þögninni en ekki beinlínis bann á fréttaflutning af hálfu stjórnar DV). En nú er ég kannski að gera Sigurði upp vondar sakir, hann er eflaust gæðablóð og vonandi ver hann blásaklausa fjölskyldumanninn frítt enda vofir gjaldþrot yfir hinum ákærða að hans eigin sögn verði hann sakfelldur (ætli hann sé búinn að týna reikningsnúmerum í bæði aflandseyjum og skattaskjóli?).

Það er gott hjá Sigurjóni að fylgjast með tískunni og láta sér vaxa skegg. Hann er kúl á skyrtunni og sniðugt hjá honum að mæta með IKEA pokann. Einu skiptin sem hann skýtur verulega yfir markið er þetta smáatriði með sakleysið og venjulega fjölskyldumanninn.

Efnisorð: ,