fimmtudagur, september 25, 2014

Sykursæt skilaboð alþingis í þágu lýðheilsu

Það er frekar fyndið að lesa frétt um að Mjólkursamsalan telji að „til greina gæti komið að hætta að setja gervisykur í mjólkurvörur vegna óvissunnar um hollustu hans“. Ekki veit ég um hvort gervisykur er óhollur, um það hefur verið lengi deilt (hér má lesa stutta úttekt á nokkrum sætuefnum). En um langt skeið hefur verið rætt um sykur — þennan sem gervisykurinn átti að leysa af hólmi (en virðist í staðinn brengla sykurskynjun fólks og gera það enn brjálaðra í sykur enn áður). Sykur þykir svo óhollur að hann hefur verið kallaður „hvíta efnið sem drepur“. En sykur er í nánast öllum matvörum, alveg undarlegustu matvörum ef satt skal segja, honum er sprautað í kjúklingabringur (vonandi eftir dauða hænunnar), honum er bætt við haframjölið (þetta bráðholla frá ORA), hann er eiginlega í andskotanum öllu.

Og Mjólkursamsalan, sem nú hefur áhyggjur af hollustu gervisykursins, hún alveg mokar sykrinum oní flestallar umbúðir, sama hvort innihaldið heitir skyr eða jógurt. Og hefur lengi skellt skollaeyrum við ábendingum um að draga úr sykurmokstrinum. Við erum alin upp við að trúa því að mjólk sé góð og að jógúrt sé frábær morgunmatur og skyr frábær hádegisverður. Hvað ætli ársneysla á sykri sé mikil hjá manneskju sem neytti þessara sykurskreyttu mjólkurafurða væri, alveg burtséð frá öllum hinum sykrinum sem hún meira og minna óafvitandi setur ofaní sig, svo ekki sé nú talað um meðvitað sælgætisát? Þó hún héldi sig bara við afurðir merktar MS er spurning hvort hún færi ekki langt út fyrir öll mörk þess sem æskilegt er að innbyrða.

En það er nú samt ljós í myrkrinu. Eða þannig. Því sykurskatturinn sem síðasta ríkisstjórn kom á (vonda forræðishyggjan sem vildi minnka sykurneyslu útfrá lýðheilsusjónarmiðum) er afnuminn í nýja fína fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stóð í pontu Alþingis og beinlínis auglýsti það að ABT mjólkin frá Samsölunni myndi lækka í verði þegar vörugjöld á sykri yrðu fellt niður.

Ráðherra sagði heildarhækkun matvöruverðs ekki nema fimm prósentustigum vegna mótvægisáhrifa vörugjaldaafnámsins. „Ástæðan er sú að vörugjaldið leggst á alla sykraða matvöru og vörur með sætuefnum og hækkar þannig verð á ýmsum algengum vörutegundum. Þannig bera til dæmis ýmsar algengar mjólkurvörur sykurgjaldið. Þetta eru innlendar framleiðsluvörur, viðulegur formaður Vinstri grænna, innlend framleiðsla. Kannast einhver við að hafa keypt ABT-mjólk úti í búð í mjólkurkælinum?“ Spurði Bjarni og játaði því einhver í salnum.

„Hún [ABT-mjólkin] ber þetta sama vörugjald og það verður fellt niður. Það verður því ekki fimm prósentustigahækkun, eins og hækkun virðisaukaskattsins gæti gefið til kynna, heldur milli tvö og hálft og þrjú prósent.“

Til gamans fletti ég upp á innihaldslýsingu ABT-mjólkur. Hér er um að ræða ABT-mjólk m/jarðarberjum og ávaxtamusli

INNIHALD:
ABT: Nýmjólk, jarðarber (6%), sykur, undanrennuduft, þrúgusykur, litarefni (rauðrófulitur), bragðefni, lifandi gerlar (S. thermophilus, L. acidophilus, B. bifidum, L. bulgaricus).

MUSL: Þurrkaðir ávextir, súkkulaðihúðaðar kornkúlur, hafraflögur, kornflögur, hveitiflögur, heslihnetur, hveitiklíð, jurtaolía, sykur, hunang, salt.

Glöggir lesendur taka eftir að í tenglinum er talað um „markfæði og bætiefnavörur“. Þær eru skilgreindar svona:
„Markfæði hefur margvísleg styrkjandi og jákvæð áhrif á heilbrigði fólks og dregur úr áhrifum neikvæðra áreita sem geta skaðað heilsuna.“ Svo sem sykur, þrúgusykur, súkkulaðihúðað drasl og meiri sykur. Innihaldið hlýtur að teljast meiri aðför að neytendum en verð til samkeppnisaðila Samsölunnar.

Ég veit sveimér ekki hvort mér hugnast betur sú fína auglýsing sem ABT-mjólk fékk í pontu þingsins eða innihaldslýsingin. Ætli mér finnist ekki bara best að Mjólkursamsalan telji að til greina gæti komið að hætta að nota gervisykur (núna þegar sykurinn verður ódýrari í innkaupum). En auðvitað bara vegna þess að Samsalan hefur áhyggjur af heilsu neytenda.

Efnisorð: ,