miðvikudagur, september 10, 2014

Aðför að láglaunafólki, nú er lag

Ég dæsti þunglyndislega þegar ég sá fjárlagafrumvarp Bjarna Ben og Sigmundar Davíðs. Hækkun matarverðs í uppsiglingu, og að gamalli hefð verður hún eflaust hærri en virðisaukaskattsprósentan gefur til kynna því fæstir neytendur átta sig á þegar aukalega er smurt á verðið. Sama gildir með afléttingu vörugjalda, hún mun ekki skila sér til neytenda. Ekki að ég sé hlynnt verðlækkun á sykri, það var ein af skynsamlegu ákvörðunum síðustu ríkisstjórnar að reyna að draga úr neyslu sykurs. En já, hækkaður skattur á bækur. Það verður ekki beinlínis til að hvetja fólk til að gefa bækur í jólagjöf og barnafjölskyldur hafa enn síður efni á að halda bókum að börnunum.

Gamanaðí samt að barnafólk fær hærri bætur til að koma til móts við kostnaðinn við að gefa börnunum að borða, aðrir sem ekki hafa börn undir 18 ára aldri á framfæri fá enga slíka dúsu. Námsmenn, aldraðir, öryrkjar og aðrir láglaunahópar, svo ekki sé talað um atvinnulausa aumingja (þessir sem fá nú skemmri tíma til að fá sér vinnu eins og almennilegt fólk), geta bara étið minna.

Samtök atvinnulífsins, m.ö.o. talsmenn vellaunaðra, lýsa ánægju sinni með þetta enda hefur að þeirra sögn lengi staðið öllu viðskiptalífi fyrir þrifum hvað það er erfitt að reikna út virðisaukaskatt og tollgjöld ýmiskonar. (Í leiðara segir Óli Kristján Ármannsson að það ætti að vera hægt að ráða við dálítið flækjustig í kerfinu, en það er auðvitað bara kjaftæði. Það er alltof erfitt að hafa lægri virðisaukaskatt af mat og bókum. Þarf mannskap á launum við það, nú er hægt að reka marga!) En hærra matarverð kemur auðvitað líka illa við hálaunafólk, ekki spurning, því erlendir ostar eru allltof dýrir enda fáránlega hátt tollaðir, vonandi verður því breytt. Úrvalið verður líka að aukast og framboð dádýrakjöts tryggt. Það verður að hafa eitthvað að maula fyrir framan nýja ódýra feiknarflatskjáinn.

Okkur hinum líst ekki á blikuna. Eina vonin er að ríkisstjórnin verði gerð afturreka með fjárlagafrumvarpið. Þar má vona að almenningsálitið hafi áhrif (og þeir Framsóknarþingmenn sem ekki eru hlynntir hækkuðum vsk á mat; Sjálfstæðismenn eru auðvitað hlynntir frjálshyggju þar sem þeir ríkustu hafa það best) en mestar vonir bind ég þó við stjórnarandstöðuna.

Það hressti mig samt talsvert við þegar ég sá frétt Ríkisútvarpsins um þriggja ára gömul ummæli Sigmundar Davíðs sem þá var stjórnarandstöðuþingmaður og taldi sig hafa sönnun þess að hin vonda ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ætlaði að hækka matarskammtinn. Það þótti honum skelfileg hugmynd.

„Það er löngu sannað að skattahækkanir á matvæli koma verst við þá sem lægst hafa launin og þegar virðisaukaskattur á matvæli var lækkaður á sínum tíma skipti það mjög miklu máli fyrir fjárhag heimilanna.
Að hækka virðisaukaskatt á matvæli í þeirri stöðu sem nú ríkir er hrein aðför að láglaunafólki. Þetta er rangt og þetta verður að stöðva.

Ef af slíkum skattahækkunum verður er algerlega ljóst að fyrsta verk Framsóknar í ríkisstjórn verður að afnema þær.“

Það verður mikil skemmtun að fylgjast með umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld þar sem Sigmundur Davíð þarf að horfa framan í þjóðina.

Efnisorð: , , , , , ,