þriðjudagur, ágúst 26, 2014

Hvíti Kristur

Óvænt innsýn — það ætti kannski að kalla það innlit — fékkst í hugarheim innanríkisráðherra í Kastljósviðtali kvöldsins. Í stað þess að sitja við yfirheyrsluborð Kastljóssins í Útvarpshúsinu var landsmönnum öllum boðið heim til Hönnu Birnu. Og sjá, þar er allt svona skínandi hvítt. Ekki laust við að stemningin minni á kapellu, kirkjulegir kertastjakar og allt. Í miðri hvítri uppstillingunni sat svo innanríkisráðherra, í klæðnaði í stíl við umhverfið, alvörugefin einsog hæfði tilefninu (og umhverfinu), og sagði frá skriftum lögreglustjórans sem trúði henni fyrir hvað honum reyndist þungbært að verða að rannsaka ráðuneytið hennar, og á móti bað hún hann að sjálfsögðu — en samt ekki af neinni afskiptasemi — um að yfirheyra nú Gísla garminn fljótlega, enda hlýtur að vera VIP röð fyrir betri borgara í yfirheyrsluherbergin. (Ef Gísli verður dæmdur sekur fær hann örugglega að hefja afplánun strax á Kvíabryggju einsog Baldur ráðuneytisstjóri um árið, það er bara pöbullinn sem þarf að bíða eftir að röðin komi að þeim í yfirheyrslum og afplánun.)

En hvort það er Gísli sem hefur logið svona að henni eða hún er sjálf að ljúga þessu öllu allan tímann (sannarlega laug hún í þingsal að hvergi í ráðuneytinu væri til lekaplaggið margfræga — en segir nú að hún hefði e.t.v. átt að skýra betur að hún meinti plaggið eins og það lítur út með viðbótinni sem Gísli er grunaður um að hafa skrifað) þá var öll uppstillingin til að undirstrika að hún væri með tandurhreina samvisku.