mánudagur, ágúst 11, 2014

Að ala upp karlmenni

* Aðvörun: tengt er á fréttir með óhugnanlegum myndum. *

Það vekur eðlilega óhug þegar fréttist af því að sjö ára gamall ástralskur drengur hafi verið dreginn með föður sínum til mannvíga í Sýrlandi. Mynd hefur birst af drengnum þar sem hann heldur á höfði fallins sýrlensks hermanns.

Allt venjulegt fólk hlýtur að setja spurningarmerki við uppeldisaðferðir föðurins almennt og þá innrætingu á lítilsvirðingu fyrir mannslífum sem hann virðist staðráðinn að innræta syni sínum.

Nokkrum dögum áður en myndin af drengnum með mannshöfuðið birtist, birtist mynd í Sunnlenska sem stoltur íslenskur faðir tók af syni sínum með dauða tófu sem þeir feðgar börðu til bana. Í fréttinni virtist sem þetta væri hið besta mál — fjölmiðlinum fannst semsagt þetta til eftirbreytni þó það sé ekki bara lögbrot að berja refi til dauða heldur andstyggileg meðferð á dýri. Í athugasemdum við fréttina var fólk almennt sammála um að þetta væri ekki á nokkurn hátt réttlætanlegt en þó fannst sumum þetta bara hið besta mál. Einn þeirra sagði:

„Hann verður karlmenni þessi drengur“

Alveg er ég viss um að það var líka viðhorfið hjá pabba stráksins sem hélt á höfði sýrlenska hermannsins.

Já, ég var að líkja saman dauða manns og dauða dýrs. Fyrst og fremst var ég þó að gagnrýna uppeldisaðferðir karlanna og ræktaða fyrirlitningu á lífi annarra, líka dýra.

Efnisorð: , ,