föstudagur, júlí 04, 2014

Brugðist við Knúzi um fóstureyðingar

Steinunn Rögnvaldsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir skrifuðu pistil á Knúzið þar sem þær ræða um fóstureyðingar og lýsa þeirri ætlun sinni að gefa út bók með reynslusögum kvenna af fóstureyðingum. Þær segja:

„Sem betur fer búum við ekki í samfélagi sem skilgreinir frjóvguð egg sem fóstur, og fóstur sem manneskju sem nýtur sömu réttinda og nýfætt barn eða fullorðin manneskja. En það þarf ekki mikið að breytast til að svo verði. Fjöldahreyfingar og dómsúrskurðir í Bandaríkjunum eru sífellt að grafa undan rétti kvenna til fóstureyðinga. Og vissulega er margt sem greinir að Ísland og Bandaríkin. En það er færra sem greinir okkar félagslega veruleika frá Evrópu. Og þar eru þessar breytingar líka að eiga sér stað.

Þess vegna viljum við byrja að ræða fóstureyðingar aftur í íslensku samhengi.“

Talandi um breytingar í Evrópu, fyrir örfáum mánuðum hafði ég áhyggjur af stefnu norskra stjórnvalda (en veit reyndar ekkert um afdrif frumvarpsins) og skrifaði pistil um það hér.

Ég skrifaði reyndar svo snemma sem árið 2006 um áhyggjur mínar af stöðu fóstureyðinga hér á landi:

„Auk þess sem ég finn til með konum í Bandaríkjunum vegna þessa síversnandi ástands, þá hef ég um hríð haft áhyggjur af því að þrengt yrði að rétti kvenna til fóstureyðinga hér á landi. Sú ríkisstjórn – sem er reyndar nýfarin frá völdum – sem vildi allt gera til að ganga í augun á Bush, þar með talið að skrifa uppá stuðningsyfirlýsingu með stríði, finnst mér allt eins líkleg til að ráðast gegn rétti kvenna. En kannski er hættan liðin hjá eins og ríkisstjórnin. Framsóknarflokkurinn sækir nokkuð fylgi til sérstrúarsafnaða og ofsatrúarfólks eins og þess sem sér um sjónvarpsstöðina Omega og Sjálfstæðisflokkurinn á vís atvæði þar á bæ líka.“

Síðan þetta var skrifað fyrir átta árum hefur Framsóknarflokkurinn sýnt að hann svífst einskis þegar hann er í atkvæðaleit og það má allt eins búast við að hann biðli til sérstrúarsafnaða og ofsatrúarfólks gegn því að herða lög um fóstureyðingar — eða stöðva þær alfarið. Þessvegna tek ég undir áhyggjur Silju Báru og Steinunnar.

Eg hef reyndar skrifað sæmilegan helling um fóstureyðingar, og það er árlegur plagsiður minn að setja tengla á nokkra af pistlum mínum um þetta mál. Þá set ég yfirleitt tengla á eftirfarandi pistla sem flestir voru skrifaðir í júní 2007.

Helstu „röksemdir“ gegn fóstureyðingum - og ég svara hverri og einni röksemd en þær eru t.d. þessar:
- Að verið sé að drepa manneskju
- Að konur eigi að stunda ábyrgt kynlíf og ef þær gera það ekki eigi þær að taka afleiðingunum
- Að konur eigi ekki að stunda kynlíf nema þær vilji eignast börn
- Að konur verði að eignast fleiri börn vegna fólksfækkunar í heimalandi sínu/Evrópu
- Að konur noti fóstureyðingar sem getnaðarvörn
- Að konur fari oft í fóstureyðingu

Fóstureyðingar verða að vera löglegar
Hér minnist ég á það sem Silja Bára og Steinunn nefna, að fóstureyðingar eru hreint ekki frjálsar á Íslandi.

Takmarkanir á réttindum kvenna í Bandaríkjunum (þarna var Bush yngri enn forseti)
Hér velti ég m.a. upp þessari spurningu: Ef upp kæmi eldur á rannsóknarstofu og þú yrðir að velja milli þess að bjarga þriggja ára barni eða petriskál með tíu vikugömlum fósturvísum – hvort myndirðu velja?

Fóstureyðing eða ættleiðing
Það er í þessum pistli sem ég sagði það sem ég hef endurtekið oft síðan, ekki síst í tengslum við umræðu um staðgöngumæðrun:
„Konur eru ekki útungunarvélar. Ekki fyrir guð, eiginmanninn, móður sína (sem langar svo til að verða amma), ríkisstjórnina og lífeyrissjóðina (það vantar fleiri skattgreiðendur) eða ókunnugt barnlaust fólk útí bæ. Þær mega - og eiga að mega - eignast börn ef þær vilja og geta en vera lausar við þá kvöð sýnist þeim svo.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — karlmenn
Það kom mér ekki á óvart að bæði við pistil Silju Báru og Steinunnar á Knúzinu, og í frétt Vísis um pistilinn, ryðjast fram karlar sem leynt og ljóst agnúast út í þennan rétt kvenna. Í þessum pistli segi ég að „þeir eru ósáttir við að ráða ekki alfarið yfir lífi og athöfnum kvenna. “

Fóstureyðingar valda (ekki) ævilangri sektarkennd
Hér tala ég um það sem bók Silju Báru og Steinunnar mun fjalla um: viðhorf kvenna sem hafa farið í fóstureyðingu. Ég sagði reyndar bara „sólskinssögur“ en líklega munu fleiri hliðar málsins koma fram í bókinni.

Allskonar konur fara í fóstureyðingu
Hér er annar pistill um konur sem fara í fóstureyðingu, viðhorf þeirra og hverjar þær eru:
„Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.“

Helstu andstæðingar fóstureyðinga — kaþólikkar
Hér fjalla ég sérstaklega um kaþólikka en segi jafnframt að „fjöldi ofsatrúarmanna bæði hér og í Bandaríkjunum úr ýmsum trúfélögum eru þeim innilega sammála. “ Pistillinn er reyndar skrifaður í tíð fyrri páfa og er að því leytinu úreltur.

Fóstureyðing — þegar guð drepur saklaus börn í móðurkviði
Hér fjalla ég um mismunandi viðhorf til fósturláts og fóstureyðinga.
„Málið virðist síður snúast um að allir fósturvísar eigi að verða að barni en meira um að konur eiga að hafa samviskubit vegna kynlífs sem þær stunda og hugsanlegra afleiðinga þess.“

Eru fóstureyðingar réttlætanlegri þegar barnið gæti orðið fatlað?
Hér skrifa ég gegn snemmómskoðun.

Fóstur finna ekki til sársauka
Um rannsókn sem gerð var „og niðurstaðan er sú að sex mánaða fóstur finna ekki sársauka.“

Börn að ala upp börn
Örlítið annað sjónarhorn á umræðuna, rætt um fjölmarga ókosti þess að unglingsstelpur eignist börn. Tek samt fram að „mér finnst ekki að nokkur kona eigi að fara í fóstureyðingu fyrir þrýsting annarra, hversu gömul eða ung hún er. Mér finnst bara ekki heldur að það eigi að líta á það sem sjálfsagðan hlut að hver sem er valdi móðurhlutverkinu.“ Í pistlinum minnnist ég einnig á konu sem skrifað hefur gegn fóstureyðingum en síðan þetta var hefur hún stigið fram sem andfeministi svo það er allt í stíl hjá henni.

Þetta eru helstu pistlarnir, en reyndar má finna allt sem ég hef skrifað um fóstureyðingar með því að styðja ofurlétt á orðið fóstureyðingar þar sem það kemur fyrir hér fyrir neðan undir upptalingu á efnisorðum. Eða skoða það hér.

Efnisorð: , , , , , ,