fimmtudagur, ágúst 13, 2009

Allskonar konur fara í fóstureyðingu

Sjónvarpið sýndi í kvöld* heimildarmyndina Lake of Fire, sem fjallar um fóstureyðingar og deilurnar um þær í Bandaríkjunum. Myndin var líklega sanngjörn að því leyti að röksemdir beggja deiluaðila komu fram; bæði þeirra sem eru á móti fóstureyðingum og þeirra sem vilja að konur geti valið að fara í fóstureyðingar. Þar sem ég vil auðvitað að konur hafi þetta val þá fannst mér áróður andstæðinga fóstureyðinga alltof áberandi — og sérstaklega ógeðslegt og þeim í hag að sýna myndir af sundurlimuðum fóstrum. Andstæðingum fóstureyðinga hefur líklega fundist myndin neikvæð vegna þess að málsvarar þeirra í voru froðufellandi ofsatrúarmenn sem gerðu málstaðnum engan greiða.

Ánægjulegast var að sjá fólk sem vildi skoða málin í víðara samhengi og sagði jafnvel að báðir aðilar hefðu nokkuð til síns máls. Og enn betra var að ítrekað var bent á að þetta sama fólk er hlynnt stríðsrekstri og aftökum, þannig að það er ekki eins og „rétturinn til lífs“ eigi við um fólk eftir að það er komið úr leginu.** Jafnframt var sagt frá því að andstæðingar fóstureyðinga — sem eru kristnir bókstafstrúarmenn — eru oft á móti getnaðarvörnum, kynfræðslu, félagslegri aðstoð og jafnvel sköttum. Semsagt öllu því sem gæti dregið úr því að konur verði óléttar án þess að vilja það eða fái aðstoð ef þær kjósi að ganga með og eiga barn.

Þessir kristnu bókstafstrúarmenn (konur eru þar á meðal en það er áberandi hve karlmenn standa framarlega í þessari baráttu) eru í raun fyrst og fremst að ætlast til að nútímafólk lifi lífi sem byggir á sögum Biblíunnar, þar sem konur eru til undaneldis, karlar ráða öllu og lögmálið auga fyrir auga og tönn fyrir tönn blífur. Kvenréttindi hverskonar eru þeim þyrnir í auga (þ.m.t. að mega stunda kynlíf að vild), rétt eins og réttindi samkynhneigðra. Kynlíf á að vera stundað innan hjónabands og bara til að búa til börn. Og auðvitað snýst þetta um yfirráð yfir líkama kvenna.

Einn froðufellandi ofsatrúarmaðurinn (gott ef það var ekki sá sem síðar drap lækni sem framkvæmdi fóstureyðingar) sagði að fólk sem vildi frjálsar fóstureyðingar væri allt kynvillingar og trúleysingjar. Eða eins og einhver orðaði það í þættinum: Fyrir þeim skiptist heimurinn í kristna og alla hina. En það vill nú samt svo til að konur sem eru kristnar (eða trúaðar á einhvern hátt) og konur sem eru gagnkynhneigðar bæði styðja rétt annarra kvenna til að fara í fóstureyðingar og nota sér jafnvel þann rétt sjálfar, ef svo ber undir.

Meðan ég horfði á myndina rifjaði ég upp þær konur sem ég þekki sem hafa farið í fóstureyðingu. Sumar þeirra voru giftar*** eða í langvarandi sambandi þegar þær urðu óléttar og tóku af einhverjum ástæðum þá ákvörðun að eignast ekki barn í það sinn. Sumar höfðu áður átt barn, aðrar vildu gjarnan eignast barn en tímasetningin var þeim í óhag (t.d. vegna nýafstaðinnar barnsfæðingar) eða heilsufarið eða fjárhagurinn var ekki beysinn. Sumar voru trúaðar, aðrar ekki, sumar höfðu aldrei hugsað útí að þær yrðu svona manneskjur sem gripu til þessa úrræðis. Sumar höfðu notað getnaðarvarnir sem brugðust, aðrar engar varnir. Sumar hafa farið í aðgerðina oftar en einu sinni.

Í dag eru þær mæður, ömmur, barnlausar frænkur, systur, stjúpmæður, eiginkonur, kærustur, vinnufélagar, vinkonur.**** Sumar fullar eftirsjár, sumar hugsa útí hve gamalt barnið væri í dag, aðrar velta engu slíku fyrir sér. Sumar segja frá þessu eins og ekkert sé, aðrar segja bara örfáum vel völdum nákomnum aðilum gegn loforði um trúnað. Það eru semsé fullt fullt af konum sem hafa valið á einhverjum tímapunkti að eignast ekki barn þó sæðisfruma og eggfruma hafi runnið saman í legi þeirra. Og það er bara alltí lagi.

Konur eiga rétt á að velja hvort og hvenær þær eignast börn. Punktur.

___
* Myndin var reyndar alltof seint á dagskrá, lauk nú rétt um eittleytið og áhorfendur líklega færri af þeim sökum.
** Sérkennilegt að íslenski þýðandinn notaði alltaf orðið „móðurlíf“ þegar „leg“ ætti betur við, enda hlutlausara orð.
*** Ég hef ekki fundið nýlegar tölur en hér kemur fram að árið 1976 voru 45% kvennanna giftar, 39% ógiftar og 14% giftar áður (fráskildar eða ekkjur). Árið 1985 voru 26,8% kvenna, sem fóru í fóstureyðingu, giftar en 64,5% ógiftar og af þeim voru 10,4% í sambúð.
**** Í stuttu máli sagt: Þú þekkir líklega líka fjölda kvenna sem hafa farið í svona aðgerð, jafnvel þó þér hafi ekki verið sagt frá því.

Efnisorð: , , ,