laugardagur, ágúst 08, 2009

2009 og konur eru enn til sýnis fyrir peninga

Morgunmatur og Fréttablaðið fara saman. Fyrir daga Fréttablaðsins las ég Morgunblaðið meðan ég maulaði morgunmat og um nokkurra ára skeið Þjóðviljann eða þar til hann lagði upp laupana. En alltaf er lesið. Nú í morgun var ég blessunarlega búin að kyngja síðasta bitanum þegar ég kom að öftustu opnu blaðsins. Nú er þessi síða í blaðinu oftar en ekki helguð nýjustu fréttum af Geira í Goldfinger og álíka andans mönnum, skrifuðum af Jakobi Bjarnar Grétarssyni, og því ekki við því að búast að lesendur verði fyrir menningarlegri uppljómun af lestrinum. Samt brá mér talsvert þegar ég sá að verið var að kynna blautbolssýningu unglingsstelpna.

Þessi stelpugrey virðast hafa heyrt eitthvað af því sem feministar hafa segja undanfarin ár — gripið nokkur hugtök og orðalag — en ekki skilið neitt.* Hið frjálshyggjulega umhverfi Verslunarskólans hvetur auðvitað ekki til sjálfstæðrar hugsunar og því varla við því að búast að nemendur skólans skilji neitt nema það sem kemur að því að græða peninga. Þessar stelpur vilja afla fjár fyrir listafélag skólans og nota til þess öll meðöl. Þar á meðal unga líkama sína, sem karlmönnum þykja svo eftirsóknarverðir.

Það er óþægilegt að byrja daginn á að verða sorgmædd. Því ég get ekki lýst tilfinningum mínum þegar ég las þetta öðruvísi en sem vonleysi og sorg. Verra er þó þegar ungar stelpur byrja lífið á að gangast við hlutverki sínu sem leiksoppar karlveldisins með svo augljósum hætti.

Vonandi læra þær einhverstaðar gagnrýna hugsun.

___
* Þær segja m.a.: „Staðalímyndin að stelpur séu rosalega sexí að bóna bíla fannst okkur mjög fyndin.“ Of oft heldur fólk að niðurlægjandi eða meiðandi atferli verði fyndið ef það sjálft tekur þátt í því. Þá er oft talað um að það geri eða segi eitthvað á írónískan máta, en í rauninni er það bara að gera það sama og ef engum þætti það fyndið. Hálfberar stelpur eru jafn hálfberar þó þeim þyki það fyndið. Strákarnir glápa jafnt á þær fyrir því, nema hvað þeim þykir það ekki fyndið heldur sjálfsagður réttur karlmanna að fá að horfa á hálfberar stelpur.

Efnisorð: , , ,