sunnudagur, júlí 12, 2009

Ég virði mannréttindi þín þar til þú ferð úr fötunum

Mjög margir velta fyrir sér hvaðan kaffið þeirra kemur. Hvort það kemur frá viðurkenndum söluaðilum, hvort þeir sem rækta það og vinna fái sanngjörn laun, hvort verkalýðsfélög séu virk. Vilja ekki kaupa kaffi sem einhver græðir á án þess að allir sem að framleiðslunni koma fái sanngjörn laun og aðstæður. Margir vilja ekki kaupa föt eða neysluvörur sem börn hafa búið til, eða grunur leikur á að séu framleidd í verksmiðjum þar sem fólki er þrælað út.

Meðvitaðir neytendur, hvort sem það eru gamlir hippar, ungir anarkistar, vinstri sinnað fólk eða bara með hjartað á réttum stað, vill ekki taka þátt í að níðast á öðru fólki bara vegna þess að það sé fátækt eða hafi fæðst í landi þar sem enginn getur rakið ættir sínar til Jóns Arasonar. En sumt af þessu fólki lætur sér þó í léttu rúmi liggja aðstæður, kjör, mannréttindi og virðingu gagnvart öðrum þegar kemur að því að fá kynferðislega örvun eða útrás. Þá skiptir uppeldi, aðstæður, neyð og manngildi engu máli, litið er framhjá fortíð sem einkennist af sifjaspellum, nauðgunum, eiturlyfjaneyslu, fátækt, neyð; bara svo framarlega sem þetta kvenkyns fyrirbæri á skjánum, uppi við súluna eða sem er lokað inni með þér á hótelherbergi er nógu sexý og lítur út fyrir að vera til í kynlíf þar sem engum götum líkamans er hlíft. Þá skiptir nú lífrænt-ræktaða-sjálfbæra-allir-jafnir-við-borðið hugsunin litlu máli!

Ekki það, konur vita vel um hræsni vinstri sinnaðra karlmanna. Allt frá dögum frönsku byltingarinnar til róttæku sellanna á sjöunda áratug síðustu aldar, hafa konur haldið að framlag sitt skipti máli og að nú yrðu þær loks fullgildar í samfélaginu. Í staðinn fengu þær að hella uppá kaffið og náðarsamlegast að sofa hjá leiðtoganum og kláru strákunum. Lengra náði jafnréttishugsun karlmannanna ekki.

Það svíður samt alltaf að vita um vinstri sinnaða karlmenn, mannréttindapostula, anarkista, eða almennt séð hugsandi karlmenn sem finnst klám, vændi og strippstaðaheimsóknir vera sjálfsögð mannréttindi þeirra. Sumir þykjast líta svo á að þeir séu að fagna frelsi kvenna til kynlífs með þessum hætti, aðrir láta sem það sé uppreisn gegn borgaralegum gildum eða eitthvað álíka gáfulegt.

Það eru ekki bara frjálshyggjusvínin sem hata feminista og eru hlynntir klámi og vændi (svo ekki sé talað um barsmíðar á konum og nauðganir, en fæstir sjá samhengið þar á milli þó þeir þykist verulega á móti öllu ofbeldi á konum) heldur líka „góðu gæjarnir,“ þessir sem eiga að heita í liði með feministum og öðru réttsýnu fólki.

Djöfuls hræsnarar.

Efnisorð: , , , , ,