föstudagur, júní 12, 2009

Aumingjar með orðu

Þjóðhátíðardagurinn er í næstu viku. Verður ekki bara hátíðarhöldum sleppt? Eiginlega ósmekkleg tilhugsun að stefna fólki niður í bæ að fagna. Fagna hverju? Varla mun þjóðarstoltið skína úr hverju andliti.

Vonandi hefur forsetinn rænu á að sleppa fálkaorðuveitingum þetta árið. Nýverið hef ég verið að rekast á myndir af honum að veita hinar ýmsu orður og verðlaun. Sigurður Einarsson í Kaupþingi (þessi sem ber innrætið utaná sér) fékk fálkaorðu 2007, eða eins og það er orðað: „riddarakross fyrir forystu í útrás íslenskrar fjármálastarfsemi.“* Björgólfur Guðmundsson fékk orðu 2005.

Hefð er fyrir því að hæstaréttardómarar, forsetaritari og aðrir embættismenn fái orðu fyrir að mæta (stundvíslega?) í vinnuna. Pólitíkusar fá af einhverjum álíka annarlegum ástæðum orður í röðum, sérstaklega ef þeir eru í réttum flokkum: Guðni Ágústsson (2006), Halldór Ásgrímsson (2005) og Geir Haarde (stórriddarakross með stjörnu 2005, stórkross 2006 — hann hefur langað í settið), líklega að eigin ósk. Ráðuneytisstjórar eru fastir áskrifendur, og heitir það að þeir fái stórriddarakross fyrir störf í opinbera þágu.

Baldur Guðlaugsson, hinn frækni og ómissandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu — sá hinn sami og seldi bréfin sín þegar hann vissi hvert stefndi með bankana — hefur ekki enn verið sæmdur neinni orðu. Er hann kannski næstur í röðinni? Kannski má nota orðu sem dúsu til að stinga uppí hann og fá hann til að hunskast burt, taka pokann sinn eins og vinur hans Eimreiðarstjóranum í Svörtuloftum var gert að gera?

Held að ég loki mig inni á sautjándanum og dragi fyrir alla glugga. Þetta getur enn versnað.

___
*Kaupþing fékk líka útflutningsverðlaun 2005 og Jón Ásgeir fékk þau í september 2008 fyrir hönd Baugs, aðeins nokkrum vikum áður en allt hrundi.

Efnisorð: , ,