mánudagur, júní 01, 2009

Auga fyrir auga þar til heimurinn verður blindur

Bandarískur læknir sem starfaði í Kansas var skotinn til bana í kirkju í gær. Árið 1993 varð hann einnig fyrir skotárás og skemmdarverk hafa verið unnin á lækningastofu hans oftar en einu sinni.* Ástæða þess er sú að hann framkvæmdi fóstureyðingar. Nú styttist í að Bandaríkjaforseti setji nýjan dómara í embætti við hæstarétt Bandaríkjanna og hefur hann valið konu til að taka við því embætti.** Bandaríkjaþing þarf þó að samþykkja hana í embættið og líklega hefur banamaður læknisins viljað sýna skoðun sína á fóstureyðingum af því tilefni. Enda er það svo rökrétt, að drepa einhvern til að sýna fram á að það sé rangt að eyða lífi.

Umræðan um fóstureyðingar verður örugglega enn háværari um stund í kjölfar morðsins, en sembeturfer er núverandi forseti Bandaríkjanna ekki svo skyni skroppinn að hann haldi að hægt sé að taka þennan rétt af konum. Vonandi verður nýi dómarinn sama sinnis.

___
* Níu manns hafa dáið af völdum andstæðinga fóstureyðinga og álíka margir slasast. Einn morðingjanna var svo tekinn af lífi (hann drap tvo í Flórida) og má með sanni segja að Bandaríkjamenn trúi á auga fyrir auga tönn fyrir tönn aðferðina.
** Sonia Sotomayor yrði þriðja konan í sögunni til að setjast í hæstarétt Bandaríkjanna. Aðeins ein kona er hæstaréttardómari núna. Fátt er vitað um afstöðu Sotomayor til fóstureyðinga.

Efnisorð: