laugardagur, maí 09, 2009

Neytendavitund og fjármálalæsi

Það kom mér ekki á óvart að heyra að fjármálalæsi væri almennt lélegt. En að vissu leyti var það léttir því sjálf er ég nánast ólæs á fjármál (eins og áður hefur verið minnst á) og það var ekki fyrr en eftir bankahrunið sem ég fékk áhuga á að vita eitthvað um hvað sneri upp og niður á fjármálalífinu eins og það gekk fyrir sig. Fram að því var ég í þeirri stöðu sem mér fannst eðlilegt að vera sem vinstrisinni: hafði ekki áhuga á peningum og fannst fáránlegt að velta sér uppúr hvað einhverjir gróðapungar væru að bralla. Get því ekki hreykt mér af því að hafa vitað hvað var í aðsigi, hvað þá varað við því.*

Á mestu gósentíð bankabrasksins voru allir fréttatímar stútfullir af heitum fréttum af Nasdaq og Dow Jones en þær sögðu mér ekki neitt. Mér fannst líklegt að þeir sem hefðu áhuga á stöðunni væru búnir að verða sér útum þessar upplýsingar með öðrum hætti (enda síbreytilegar og staðan klukkan sjö að kvöldi enginn stóridómur) og sá ekki tilganginn í að dæla þessum leiðindum yfir venjulegt fólk. Hvað þá að ég nennti að fylgjast með viðskiptasíðum dagblaðanna, fannst það fyrir annarslagsfólk en mig sem rétt svo veit muninn á virðisaukaskatti og útsvari.

Auðvitað er fullt af fólki sem var ekki í vinnu hjá bönkunum og átti engra hagsmuna að gæta í viðskiptalífinu sem fylgdist samt með (sumt jafnvel vinstrisinnað!) og sá stefnur og strauma í fjármálum og hvernig sveiflur gengis og vísitölur ýmiskonar spiluðu saman. Ég hefði betur haft það fólk mér til fyrirmyndar heldur en einhverja hippa sem sögðu að peningar væru svo óáhugaverðir að þeir kæmu sér ekki við. Það er nefnilega góð regla að fylgjast með því sem óvinurinn er að gera. Það er í raun vítavert kæruleysi af mér að hafa leyft mér að hafa ekki áhuga á þessu, hunsa þetta sem óþarfa og leiðindi.

En ég fékk skyndinámskeið í hagfræði eftir hrunið og þá aðallega við að lesa Silfur Egils. Nú finnst mér samt eins og ég sitji eftir í tossabekknum því þar eins og annarstaðar eru menn farnir að tala sérfræðingamál sín á milli, hættir að útskýra hvað orðin þýða en ryðja uppúr sér upplýsingum sem eflaust liggur á að koma á framfæri. Ég er löngu hætt að skilja neitt og búin að gleyma því sem áður var sagt þegar lykilhugtök voru útskýrð. Auðvitað ætti að kenna fjármálalæsi í skólum en Kastljósmaðurinn hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði að blaðamenn mættu hugsa út í lélegt fjármálalæsi þjóðarinnar þegar þeir eru að flytja okkur þær fréttir með öndina í hálsinum að stýrivextir hafi lækkað. Stýrivextir hvað?

Á skandinavísku sjónvarpsstöðvunum eru neytendaþættir reglulega á dagskrá. Ég hef ekki fylgst nógu vel með til að sjá hvort fólki er kennt að skilja eigin fjármál og samfélagsins þar. En ýmiskonar réttindamál neytenda eru þar rædd. Ef slíkir þættir hefðu verið í Sjónvarpinu þá er ég nokkuð viss um að fleiri hefðu áttað sig á hverskonar ógreiða var í raun verið að gera fólki með því að bjóða 100% húsnæðislán og endalaus yfirdráttarlán. Þar hefði almenningur líklega jafnframt lært að það væri ekki skynsamlegt að kaupa allt á VISA raðgreiðslum.** Ekkert okkar hefði getað forðast hrun bankanna sjálfra, en almenningur hefði kannski ekki verið svona skuldsettur fyrir.

Auk fréttaskýringa og almennrar uppfræðslu um fjármál heimila og þjóðhagfræði þá held ég að almenn neytendafræðsla hljóti að vera nauðsynleg hér. Mér veitir allavega ekki af.

__
* Eina skiptið sem mér rataðist satt á munn varðandi nokkuð sem tengdist fjármálum var þegar allir voru að kaupa sér bréf í Decode og þau hækkuðu sífellt í verði. Þá vildi ég ekki vera með (fremur en endranær) og tautaði eitthvað á þá leið að það sem fer upp hlýtur að koma niður aftur.

** Viðbót 12. maí: Ólína hafði líka nefnt þetta hjá sér.

Efnisorð: