miðvikudagur, apríl 15, 2009

Múlbindingar sérstaklega hannaðar fyrir fólk með skoðanir

Mér finnst mjög sérkennilegt að hægt sé að losna við að Kolbrún Halldórsdóttir komi að ákvörðunum um virkjanir í Þjórsá vegna þess að hún hafi skoðanir á málinu. Ef einhver kemst á þing eða þingmaður verður ráðherra meðal annars vegna áhuga síns á ákveðnum málaflokki, á þá viðkomandi þá aldrei að mega taka ákvarðanir í málum sem tengjast þessu baráttumáli sínu? (Þá mættu bloggarar aldrei fara á þing eða fá nein embætti).

Það er munur á þessu og því að vera þegar ráðherra eða vera í nefnd sem fjallar um ákveðinn málaflokk og taka þá uppá því að vera með yfirlýsingar hægri vinstri, vitandi að þú hefur áhrif á niðurstöðu mála. Þegar Kolbrún hefur tjáð sig um virkjanabrjálæðið í Þjórsá hefur hana líklega ekki grunað að hún yrði í raun umhverfisráðherra. Þegar Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra var með heitingar í Baugsmálinu þá vissi hann að það hefði áhrif. Starfandi ráðherra, rétt eins og embættismenn, má ekki láta útúr sér slíkt. En fólk sem hefur ekki embætti hlýtur að mega tjá sig um áhugamál sín og baráttumál. Rétt eins og það var fullkomlega eðlilegt að Eva Joly væri ráðin til að rannsaka bankahrunið eftir að hafa sagt að það væri greinilega ekki allt með felldu. Hefði kannski frekar átt að ráða fólk sem var sannfært um að ekkert væri að - gafst það svo vel hjá Fjármálaeftirlitinu?

Efnisorð: , ,