föstudagur, apríl 10, 2009

Vor í lofti

Að vissu leyti furða ég mig á látunum yfir tugmilljóna styrkjunum sem upp hefur komist að Sjálfstæðisflokkurinn fékk. Það kemur mér a.m.k. ekkert á óvart að vita að stórfyrirtæki hafi styrkt flokkinn. Þetta er jú flokkurinn sem hefur alltaf borið hag þessara fyrirtækja fyrir brjósti og þá hljóta þau annaðhvort að þakka fyrir sig með vænum summum eða borga fyrirfram. Skiptir litlu hvort er, bæði miðar að því sama. Mér þætti auðvitað forvitnilegt að sjá uppgjör fleiri ára en bara síðasta ársins sem leyft var að taka við svo háum styrkjum - eða hefur Hvalur ekkert borgað til flokksins eða Alcoa?

Álfyrirtækin hljóta að hafa borgað Framsóknarflokknum (sem nú er voða voða þögull um sitt bókhald) eða fór það bara beint inná reikninga Valgerðar Sverrisdóttur og Halldórs Ásgrímssonar? Kannski eru stjórnmálamenn styrktir beint - að minnsta kosti ganga sögur um að fyrirtæki hafi hlaðið mikið undir ákveðna frambjóðendur í prófkjörum.* Samfylkingin (og einstakir þingmenn hennar) eru sjálfsagt ekkert undanskildir þessum mútugreiðslum öllum, og kannski er barnaskapur að halda að hvergi hafi fallið blettur eða hrukka á aðra þingflokka eða einstaka þingmenn þeirra.

En sem stendur er það Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur verið afhjúpaður. Vonandi verður það til þess að illa áttaðir kjósendur sem enn héldu að hægt væri að treysta Flokknum taki nú loksins sönsum.

Lyktin sem leggur af þessu máli öllu minnir mig á þegar tíðkaðist að bera kúamykju og hrossatað á tún. Það gerði mér alltaf glatt í geði því bæði þótti mér lyktin góð og minnti á að vorið væri komið.

___
* Nafn Guðlaugs Þórs kemur iðulega upp í umræðum dýr prófkjör.

Efnisorð: ,