fimmtudagur, apríl 02, 2009

Endur synda berar

Ég hef lengi talið mig vera þeim megin að vilja ekki að Ísland gangi í Evrópusambandið. Eftir bankahrunið endurskoðaði ég forsendur mínar og held að ég sé komin að niðurstöðu.*

Ástæður þess að mér leist aldrei á að ganga í ESB voru aðallega yfirráðin yfir fiskimiðunum og áhyggjur af því hvað yrði um íslenskan landbúnað. (Svo fannst mér líka eitthvað undarlegt við það að horfa á Sovétríkin liðast sundur og heyra jafnvel sama fólkið mæra ESB og áður hafði gagnrýnt miðstýringuna fyrir austan járntjald). Ég held að núna sýni sig best hvað það er mikilvægt að hafa öflugan landbúnað, nógu mikið þurfum við að flytja inn af matvælum fyrir þennan nauma gjaldeyri sem við höfum. Fiskurinn hefur víst verið veðsettur þýskum banka og spurning hvort nokkru skiptir héðanaf hvort Spánverjar mæta með sinn fiskveiðiflota og ryksuga miðin. En svo er víst alltaf talað um að við eigum að geta samið sérstaklega um fiskimiðin ef við sækjum um aðild að ESB.

Kostur við inngöngu væri að hvalveiðar yrðu úr sögunni. Það er víst ekkert umburðarlyndi fyrir slíku í Evrópusambandinu. (Fáránlegt er að heyra fólk segjast ekkert þurfa á ESB að halda nema Íslendingar fái að veiða hval en finnast samt að við eigum að fá fyrirgreiðslu á öllum sviðum erlendis).

Mér finnst umhugsunarverð sú gagnrýni sem heyrist frá löndum sem þegar eru í Evrópusambandinu eða hafa hafnað að ganga í það og finnst að hún mætti vera meira til umfjöllunar hér á landi (Einar Már Jónsson tæpir stundum á þessu í pistlum sínum í Fréttablaðinu og segir að auki að ESB sé atvinnubótavinna fyrir stjórnmálamenn). Sagt er að ESB reki harða frjálshyggjustefnu og sé það rétt þá líst mér nú ekki á blikuna.

Og það er auðvitað einn gallinn: Við vitum bara allsekki nógu mikið um ESB og hvað það felur í sér að ganga í það, hvernig það ferli yrði, hvort við fengjum undanþágur, o.s.frv. Einu upplýsingarnar að ráði um ESB koma frá stækum ESB sinnum sem fjalla bara um kostina og ekki treysti ég fjölmiðlum til að upplýsa mig neitt betur, þeir ganga örna eigenda sinna og fjármagnsins að venju.

Evran er eftirsóknarverður gjaldmiðill og ekki yrði mér sérstök eftirsjá í íslensku krónunni.** Því er haldið fram að hún sé orsakavaldur í hruninu eða a.m.k. því að okkur mun takast erfiðlega að standa aftur í lappirnar. Á tímabili var talað um að taka evruna upp einhliða, þ.e. án þess að ganga í ESB eða vera endilega á leiðinni þangað. Þá var bent á að með því minnkuðu líkurnar á að okkur yrði hleypt inní ESB til muna (hvort sem það er nú rétt eða ekki). Samt er talað eins og ef við bara ákveðum að ganga í ESB þá munum við geta lagt krónunni og allt verði í besta lagi hviss bang. Mér finnst það ekki hljóma trúlega. Umsókn í ESB, aðildarviðræður og kosningar um inngöngu mun taka langan tíma og nær væri líklega að dempa væntingarnar um að það reddi okkur á næstunni. Og ekki veit ég hvar á þeim ferli við mættum taka upp evruna. Og ef þjóðaratkvæðagreiðsla leiddi í ljós að inngöngunni væri hafnað, yrðum við þá að skila evrunni? (Og yrðum við pínd til að kjósa aftur og aftur þar til við gæfumst upp og samþykktum inngöngu?)

Þrátt fyrir að vera svona frekar hlynnt evrunni þá fór alltaf um mig nettur hrollur þegar bankarnir voru að heimta að hún yrði tekin upp sem gjaldmiðill. Hótuðu jafnvel að fara úr landi ef þeir fengu ekki sínu framgengt (við hefðum betur leyft þeim að fara). Nú eru Viðskiptaráð og bankarnir auk allra þeirra úr viðskiptalífinu sem á annað borð opna trantinn allir á sama máli: að evran muni bjarga okkur. Þetta er nú ekki beinlínis liðið sem hefur haft velferð okkar hinna í fyrirrúmi fram að þessu og eru þetta því í mínum huga afar sterk rök gegn evrunni. Og þó fordæmi séu fyrir því að vera í ESB en án evru, þá efast ég um að örþjóð í vanda fái að semja um slíkt. Þannig að innganga í Evrópusambandið hlýtur að þýða evru og evran fæst ekki nema með inngöngu í ESB.

Og ákkúrat núna líst mér bara ekkert á þetta.

En kannski höfum við ekkert val og þá bara látum við okkur hafa það. Það getur ekki verið verra en það sem á undan er gengið.

___
* Niðurstaðan? Hún er sú að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð.

** Ég sé samt eftir gamla hundraðkrónuseðlinum með kindum og Heklu á bakhliðinni.

Efnisorð: , , , ,