miðvikudagur, mars 11, 2009

Tilgangur fléttulista

Steinunn Stefánsdóttir skrifar enn einn snilldar leiðarann í Fréttablaðinu í dag. Hann er skrifaður í tilefni af því að í einu prófkjörinu voru karlar færðir upp á framboðslista vegna þess að þar voru svo margar konur, og var það kallað fléttulisti. Steinunn útskýrar afar vel afhverju þetta er fáránlegt:

„Þegar vopnin snúast í höndunum
Skipan á lista stjórnmálaflokka fyrir komandi þingkosningar stendur nú sem hæst. Flokkarnir hafa mismunandi hátt á skipan listanna en forval eða prófkjör eru þó víðast haldin.

Við skipan sumra lista hefur verið valið að nota kynjakvóta til að tryggja sem jafnast hlutfall kynja á listunum. Beiting kynjakvóta er umdeild. Andstæðingar hans taka jafnvel svo djúpt í árinni að segja að kynjakvóti sé andstæður jafnrétti meðan fylgjendur kalla hann jákvæða mismunun sem nauðsynlegt sé að beita uns jafnræði ríki með kynjunum.

Meðan staðan er þannig að mikill meirihluti þingmanna er karlar er hlutverk kynjakvótans að jafna hlutföll milli kynja. Það gerir hann eingöngu með því að virka aðeins á annan veginn, þ.e. með því að beita honum aðeins konum í vil þegar hann er notaður við uppröðun á lista til þingkosninga. Þegar kynjakvótinn er farinn að lyfta körlum upp á listum þá vinnur hann þvert gegn markmiði sínu.

Verulega hallar á hlut kvenna á Alþingi. Það væri því eingöngu verjandi að beita kynjakvóta í báðar áttir í því tilviki að allir flokkar og framboð byndust samtökum um að hafa jafnt hlutfall kynja á listum sínum. Meðan skipan framboðslista er hins vegar þannig að þau þingsæti sem öruggust teljast eru að talsverðum meirihluta skipuð körlum þá fer verulega vel á því að á einum og einum framboðslista sé þessu öfugt farið.

Vinstri græn í Reykjavík geta þannig verið stolt af því að bjóða fram lista þar sem konur skipa flest þau sæti sem talin eru örugg þingsæti. Þessir framboðslistar eru raunverulegt framlag til þess að jafna kynjahlutfallið á Alþingi.

Ýmsum öðrum aðferðum en kynjakvóta má beita til að leitast við að jafna hlut kynjanna á framboðslistum. Þannig hefur verið sýnt fram á að konum vegnar yfirleitt betur í prófkjörum þar sem skýrar reglur gilda um að frambjóðendur megi verja litlu sem engu fé í kosningabaráttuna. Ýmsum þeim sem uppsigað er við kynjakvóta gæti hugnast sú leið betur.

Hlutur þingkvenna af landsbyggðinni er sérstakt áhyggjuefni. Á sitjandi þingi kemur einungis fjórðungur þingkvenna af landsbyggðinni. Skipan þeirra lista sem þegar hafa verið birtir gefa ekki tilefni til sérstakrar bjartsýni um að þetta hlutfall breytist verulega. Sérstök ástæða ætti því að vera til að beita markvissum aðgerðum til að auka hlut þingkvenna af landsbyggðinni.

Ljóst er að enn vantar talsvert upp á að staða karla og kvenna sé með þeim hætti að kynjahlutfall á Alþingi verði jafnt án þess að hjálparmeðul séu notuð. Þangað til er nauðsynlegt að beita jákvæðri mismunun óhikað.

Sé kynjakvóta beitt er mikilvægt að horfast í augu við það hvers vegna það er gert og láta hann vinna með markmiði sínu en ekki gegn því.“

Efnisorð: , , ,