þriðjudagur, mars 03, 2009

Svokallaður stuðningur

Tvennt er það sem vekur ógleði í morgunsárið.

Sigmundur Davíð er með sífelldar hótanir sem allar benda til þess að hann ætli að kippa til baka meintum stuðningi sínum við ríkisstjórnina og leiða Framsóknarflokkinn eina ferðina enn í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Hvort hann ætlar sér að gera það að loknum kosningum eða ætlar hreinlega að gera það til þess að koma í veg fyrir kosningar er ekki gott að segja en hann er greinilega ekki á nokkurn hátt óspilltari en hinir Framsóknarmennirnir.

Hin fréttin í Fréttablaðinu sem olli því að ég missti matarlystina á morgunverðinum er um stuðning Alcoa/Rio Tinto við Hjálparstarf kirkjunnar. Ég rak augun í það nýlega að Rauði kross Íslands hefur opnað stuðningsmiðstöð í samvinnu við þjóðkirkjuna og hugsaði með mér að það hlyti að vera til eitthvað í lögum alþjóða Rauða krossinn sem bannaði honum samstarf við trúfélög, enda á Rauði krossinnn að vera sjálfstæður og hlutlaus. Trúlaust fólk eða utan þjóðkirkjunnar ætti ekki að þurfa að þiggja aðstoð kirkjunnar þegar það sækir sér aðstoð RKÍ.

Og nú les ég semsagt að alþjóðlegi álrisinn - eitthvert umdeildasta fyrirtæki Íslandssögunnar - hefur lagt fram fé í Hjálparstarf kirkjunnar. Mynd fylgir fréttinni, enda Alcoa/Rio Tinto að nota sér þetta til framdráttar og skapa sér velvild. Þarf nú fólk sem í neyð sinni leitar hjálpar RKÍ (og þó það vilji jafnvel aðstoð kirkjunnar) að borða mat greiddan af Alcoa? Eða er hjálpastarf kirkjunnar aðskilið frá þessu samkrulli kirkjunnar og RKÍ? En allavega, þau sem þó vilja þiggja aðstoð kirkjunnar átt von á því að þeir sem hata alla gagnrýni á álframleiðslu og virkjanir geti nú nuddað fólki uppúr því að það hafi étið úr lófa Alcoa.

Oj bara.

Efnisorð: , ,