fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Það er svo 2007 að kaupa kynlíf

Enn og aftur á Steinunn Stefánsdóttir góðan leiðara í Fréttablaðinu. Þar fjallar hún um afar brýnt mál; vændisfrumvarpið og segir þar að „vændi er ein af mörgum birtingarmyndum kynbundins ofbeldis.“ Steinunn reifar helstu atriði varðandi vændi en hefur auðvitað ekki pláss til að rekja allar hliðar þess. Samt er þetta frábært hjá henni.*

Vonandi tekur hin feminíska ríkisstjórn upp vændisfrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur að nýju og ógildir þannig gjörning Sjálfstæðismanna frá vorinu 2007 sem hafði þann tilgang að gera körlum auðveldara að kaupa sér aðgang að líkömum kvenna. Nú ætti að vera lýðum ljóst að verslun með konur er ein birtingarmynda frjálshyggjunnar (les: græðgisvæðingarinnar) sem er loks liðin undir lok. Það ætti því að vera auðveldara að fá hljómgrunn fyrir frumvarpinu hjá almenningi, svo ekki sé talað um í þingsal þar sem loksins er þingmeirihluti fyrir feminískum lagabreytingum.

Ef öll önnur rök þrýtur má reyna að slengja því framan í frjálshyggjuguttana á þingi að það sé „svo 2007“ að kaupa kynlíf.

---
Viðbót: Frumvarpið er komið fram og nýtur mikils stuðnings í þjóðfélaginu.
__
*Í sama blaði er reyndar fjallað um meinta vændisstarfssemi í húsi gegnt lögreglustöðinni á Hverfisgötu, sem einnig er steinsnar frá húsnæði Ríkislögreglustjóra, og er þar talað um „gleðikonur.“ Mér er alltaf jafn óskiljanlegt í hverju gleðin á að vera fólgin. Vændi er vændi, ekki uppspretta gleði né gleðilegur atburður í sjálfu sér, hvað þá að vændiskonur megi vera glaðar með stöðu sína

Efnisorð: , , ,