sunnudagur, janúar 25, 2009

Obama réttir hlut kvenna

Eitt af fyrstu verkum mínum á bloggferlinum var að fjalla um sjónvarpsþáttinn Boston Legal* og hvernig í honum er tekið á ýmsum samfélagsmálum. Þar á meðal stefnu Bandaríkjastjórnar (í tíð Bush) vegna fóstureyðinga. Í einum þættinum var komið inná þá stefnu Bush að neita fjárstyrkjum til þeirra sem annars hefðu hlotið þá utan Bandaríkjanna á sviði ‘fjölskylduráðgjafar' (undir það flokkast víðtæk heilsugæsla til kvenna og ungbarna), væri á nokkurn hátt hvatt til fóstureyðinga eða þær framkvæmdar. Bandaríkjastjórn hefur annars stutt við fjölskylduráðgjöf víða um heim. Reagan setti fyrstur þetta skilyrði - sem kallað er „global gag rule“ - en Bill Clinton afnam það og Bush kom því aftur á.*

Eitt fyrsta verk Barack Obama að afnema þetta skilyrði aftur, eins og Clinton hafði líka gert sinn fyrsta dag í embætti.

Þetta sýnir auðvitað fyrst og fremst mismunandi afstöðu demókrata og repúblikana til fóstureyðinga, en ekki síður hve miklu máli skiptir fyrir konur í heiminum að til valda veljist fólk sem hefur velferð kvenna í huga.

___

* Hvað verður um Boston Legal þegar Bush er hættur?

** Mikið er það annars ömurlegt að líf og heilsa kvenna sé þrætuepli einhverra karla í Washington og það séu þeirra geðþóttaákvarðanir hvernig konum um allan heim farnast.

Efnisorð: , , ,