miðvikudagur, desember 31, 2008

Aldrei líkaði mér Kryddsíldin hvorteðer

Ég er að velta fyrir mér hvort námskeiðið sem Saving Iceland hélt, þar sem kennd var borgaraleg óhlýðni, hafi verið upphafið á því að Íslendingar eru loksins farnir að mótmæla öðruvísi en með að sitja heima og róa í gráðið og tauta fyrir munni sér. Ef svo er þá á Saving Iceland alla mína virðingu og var ég þó frekar ánægð með þau fram að þessu. Mér sýnist allavega þau sem mótmæla með því að ryðjast inn í byggingar eða skemma eitthvað (hvort sem það er óvart í hita leiksins eða meðvitað og viljandi) vera að ná meiri árangri en þau sem standa kyrr í kuldanum, enda þótt þau mótmæli eigi auðvitað líka rétt á sér, öll mótmæli eru góð.

Reyndar getur verið að tiltölulega lítil þátttaka almennings í mótmælum þessa dagana sé einmitt vegna þess að fólk vill ekki lenda í löggunni eða verða á milli þegar mótmælendum og löggunni lýstur saman, en það verður þá að hafa það. Friðsömu mótmælin skila hreinlega minni árangri heldur en þau þar sem ráðamönnum hættir að lítast á blikuna.

Ég er ein þeirra sem hef lítið farið á mótmælafundi. Enda þótt mér finnist mótmælendur hafa allan rétt til að mótmæla með hvaða hætti sem þeim sýnist (og græt ekki kostnað Jóns Ásgeirs við að endurnýja tækjabúnað Stöðvar tvö) þá langar mig ekki að verða fyrir ofbeldi lögreglunnar.

Vildi samt að ég væri skeytingarlausari um heilsu mína og væri í fylkingarbrjósti þeirra sem ryðjast inn í byggingar. En læt mér nægja að vera með þeim í andanum.

___

Viðbót 1. janúar 2009: Eftir að hafa skoðað helling af myndum og myndskeiðum sem hægt er að sjá hér og þar um netheima - en örugglega ekki öll - þá get ég ekki betur séð en að
A) mótmælendur og málsvarar þeirra hafi rétt fyrir sér í því að árás lögreglunnar hafi verið tilefnislaus. Mér sýnist að löggan, sem sannarlega er í eðli sínu varðhundur valdsins, gangi ansi hart fram í því að nota hver mótmæli sem aðvörun til mótmælenda um að næst verði enn harðar tekið á þeim.
B) tæknimenn Stöðvar 2 hafi tekið að sér að annast dyravörslu á Hótel Borg (kannski rættist þar gamall draumur) en fréttir af því að þeir hefðu slasast voru látnar hljóma eins og ráðist hefði verið á þá þar sem þeir voru að sinna vinnu sinni, lamdir í hausinn við tökuvélarnar. Nú veit ég auðvitað ekki hvort þeir gerðu þetta með glöðu geði eða hvort þeim var hótað atvinnumissi (og ekki gott að fá vinnu, Jón Ásgeir gengur fyrir í lyftaradjobbin) og hafi það síðarnefnda ráðið því að þeir hjóluðu í mótmælendur þá eiga þeir alla mína samúð. Og að einhverju leyti skil ég starfsfólk hótels Borgar, ég myndi líklega líka reyna að hindra að vinnustaður minn yrði fyrir hnjaski, en mér sýndist þeir samt aðallega gera illt verra og ekkert leiðast að fá að berja fólk.

Og mikil andskotans snilld er að Ari Eðvald - sem er einstaklega ógeðfellt fyrirbæri - skuli hóta því að þeir sem beri ábyrgð á skemmdunum verði sóttir til saka. Horfa ofar Ari, horfa ofar.

Efnisorð: , ,