laugardagur, janúar 17, 2009

Að stýra dýrum knerri eftir því sem vindar blása

Ég á eins og fleiri bloggarar orðið óhægt með að tjá mig um ástandið. Það er búið að segja þetta allt mikið betur annarstaðar og svo er ég líka þreytt á að vera sífellt að hugsa um efnahagsmál, fjárglæframenn, ríkisstjórnina og öll hneykslin sem ekkert lát virðist vera á. En mig langar samt að ræða aðeins um vettvang þessarar umræðu, þ.e.a.s. afmarkaðan vettvang, síðu sem ég les daglega og hefur veitt mér meiri upplýsingar og frætt mig meira en flestar aðrar undanfarna hundrað daga eða svo. Ég er að tala um Silfur Egils á Eyjunni.

Egill Helgason var búinn að blogga lengi og ég var eiginlega hætt að fylgjast með blogginu hans því mér fannst það álíka óspennandi og sjónvarpsþátturinn hans með sama nafni.* En eftir að allt fór á hliðina varð bloggið hans skyndilega vettvangur mikilla uppljóstrana og umræðna, og þá ekki síst í athugasemdakerfinu. Þar var greinilega innanum og samanvið fólk að skrifa sem er innvígt og innmúrað í pólítík og fjármálaheiminn nema hvortveggja sé. Að lesa athugasemdirnar - sem stundum eru teknar upp sem pistlar á síðunni sem leiðir af sér fleiri athugasemdir - var framanaf eins og að vera í hraðnámskeiði í hagfræði. Fyrir manneskju eins og mig sem hafði þann eina skilning á fjármálum að munurinn á debet og kredit væri að kreditkortið er með upphleyptum stöfum, hefur þetta verið ómetanlegt.

En eftir því sem stórmerkilegum athugasemdum fjölgaði - og sannarlega hafa þar líka flogið margar samsæriskenningar sem erfitt er að henda reiður á hvort geti átt sér stoð í raunveruleikanum nú þegar í ljós kemur að það var aldrei neitt raunverulegt við neitt af þessu bankabrölti - þá slæddust fleiri og fleiri vitleysingar með. Sumir eru góðgjarnir sakleysingjar sem sjást ekki fyrir en undanfarið hefur borið æ meira á fólki - og nú er ekki gott að vita hvort þetta séu örfáir einstaklingar sem skrifa undir fjölda dulnefna eða hvort þetta fólk er virkilega til í miklu magni - sem ver fjárglæframennina, ríkisstjórnina, frjálshyggjuna og allt það sem okkur hinum finnst hafa farið úrskeiðis auk þess sem það hatast útí mótmælendur og „niðurrifsraddir.“ Eitthvað af þessu fólki er líklega á launum við þessar skriftir (og sannarlega verður þeirra vart á fleiri stöðum en á SilfurEgils síðunni) og þá annaðhvort hjá fjárglæframönnum úr bankastétt eða frá þeim glæstu útrásarvíkingum sem við erum öll svo stolt af, eða á vegum hins opinbera.** Þetta veldur því að það verður æ leiðinlegra að lesa athugasemdir við pistla Egils og líklega læt ég mér nægja að lesa bara pistlana sjálfa þó svo gæti farið að ég missi af einhverju bitastæðu í athugasemdakerfinu.

Annað sem gerir athugasemdakerfið ólæsilegt er hrósið sem ausið er yfir Egil og eiga þar líklega mesta sök þeir sem ég áðan kallaði góðgjarna sakleysingja, þó það hvarfli reyndar að mér að það sé fólk á launum við að dæla þessu inn á síðuna til að gera lesendum gramt í geði. Í þessum athugasemdum er Egill mærður fyrir baráttu hans gegn spillingunni á þann hátt að mig velgjar.*** Svo virðist sem nú sé litið á Egil Helgason sem sérlegan vin litla mannsins, bæði vegna vefsíðunnar og vegna þess að nú er fólk sem talað hefur á mótmælafundum og skrifað gegn ríkisstjórn og fjárglæframönnum í sjónvarpsþættinum hjá honum á sunnudögum.

Mér finnst afar sérkennilegt ef fólk er komið með Egil á þann stall og minnir mig helst á misskilning margra gagnvart Jóhannesi í Bónus. Til er fólk sem hefur nánast litið á hann sem dýrling fyrir að vera með lægsta matarverð á Íslandi - og horfir þá um leið algerlega fram hjá því að hann hefur ráðið matarverði hér á annan áratug og þó Bónus hafi boðið lægsta verðið þá var það samt hæsta verð í Evrópu og að hinar matvöruverslanirnar sem voru með enn hærra verð voru meira og minna í hans eigu líka. Auk þess sem það er misskilningur að Jóhannes sé vinur litla mannsins, þegar hann var í raun að arðræna okkur öll, þá er það misskilningur að Egill sé andófsmaður, byltingarsinni og hafi verið með sérstakt aðhald gegn auðvaldinu.****

Þessi stefna hans, að hleypa að fólki sem er í andófi er algerlega ný og gerðist bara eftir efnahagshrunið í október. Fram að því (og nú bendi ég á að ég var hætt að horfa á þáttinn og er í raun bara að tala um hann eins og ég man hann) var þátturinn uppfullur af sömu pólitíkusunum og sama liðinu árið inn og árið út. Í mesta lagi var hafður stjórnarandstöðuþingmaður í settinu til þess að hleypa öllu í rifrildi (og það var alltaf mikið rifist enda þótt við ofurefli væri að etja) en stefnan var alveg skýr: peningar voru hreyfiafl heimsins, ungir karlpólitíkusar voru töff og útrásarvíkingarnir voru algert heimsmet og að slá í gegn.

Verst þykir mér að Egill tók uppá arma sína tiltölulega óþekkta ungliða úr stjórnmálaflokkunum (ég held a.m.k. að hann hafi fundið þá þar), og þá auðvitað Sjálfstæðisflokknum helst en líka Framsókn, og hafði þá í þætti eftir þætti.***** Egill gerði í raun stjörnur úr óþekktum strákum sem höfðu Morfísreynslu eða álíka uppskrúfaða sjálfstraustsframkomu. Þannig urðu Björn Ingi Hrafnsson, Sigurður Kári Kristjánsson og gott ef ekki Birgir Ármannsson (svo ég rifji upp nokkra en gleymi sjálfsagt fleirum) þekkt andlit á Íslandi eftir að hafa birst á skjám landsmanna, sem svo aftur greiddi götu þeirra í prófkjörum og kosningum. Þessir hörmulegu einstaklingar - frjálshyggjumenn og eiginhagsmunapotarar með spillingu að sérgrein - eiga tilveru sína í pólitík Agli Helgasyni að þakka. Ég er ekki eins þakklát.

Meðan „góðærið“ ríkti keyrði Egill á vinsældum peningahyggjunnar og talaði nánast eingöngu við fólk sem fylgdi henni og hampaði þeim sem skemmtilegum sem töluðu fjálglegast um kosti frjálshyggju. Þegar við blasti að allt fjármálakerfið var sýndarveruleiki og að landsmenn sátu í súpunni, sneri Egill við blaðinu - hagaði seglum eftir vindi - og hætti að tala við Sjálfstæðisguttana. Og nú finnst fólki sem hann sé ægileg byltingarhetja.

Enda þótt ég sé fegin að hafa bæði sjónvarpsþáttinn og síðuna Silfur Egils sem upplýsingaveitu á þessum síðustu og verstu tímum þá lít ég ekki á þáttastjórnandann sem besta vin barnanna. Egill er fyrst og fremst að viðra sig upp við þær raddir sem eru háværastar, núna andófið, áður græðgisvæðinguna. Það fer svo líklega eftir því hvernig vindar blása hvernig hann snýr sér næst.

___
* Ég gæti skrifað enn lengri pistil um álit mitt á Kiljunni, sem sami þáttastjórnandi stýrir.

** Nornin Eva Hauksmóðir fær ítrekaðar heimsóknir á sína bloggsíðu frá starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins sem eru með derring undir dulnefni.

*** Það hefur reyndar dregið úr þessu, mest var þetta um áramótin. Kannski var fólk undir áhrifum þegar það sat við tölvuna og vildi dreifa þeirri grátklökku vellíðan sem það fann í flöskunni?

**** Sama má segja um Bubba. Trúði því í alvöru einhver að hann væri málsvari verkalýðsins, meira segja meðan hann var að opna bensínstöðvar, auglýsa jeppa og byggja sér glæsivillu - trúir því einhver núna þegar hann á svo voða bágt að hafa tapað fé og vera kominn í sömu stöðu og almenningur - á sama tíma og hann fær nýjan jeppa afhentan?

***** Samfylkingarkonan Kristrún Heimisdóttir var reyndar mjög áberandi en hún var augljóslega til að bæta upp fyrir fjarveru kvenna í þættinum, því þar voru nánast engar konur en með því að hafa Kristrúnu oft var hægt að benda á að konur væru barasta allsekki útilokaðar.

--- Viðbót við þriðju neðanmálsgrein: Hér er Egill mærður í athugasemdum við færslu sem skrifuð er í byrjun mars á Silfri Egils, sumt af því skrifað um miðjan dag, varla er þetta allt dagdrykkjufólk?

Efnisorð: , , , ,