mánudagur, janúar 12, 2009

Kanarífuglar og aðrar upplýsingaveitur stjórnsýslunnar

Það var athyglisvert að hlusta á ræðu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur á borgarafundinum í Háskólabíói.* Eflaust verður einhver til að rekja það sem hún sagði á betri hátt en ég, en það sem skipti mestu máli var þetta.
Hún ætlaði sér að sækja um starf forstjóra sjúkratryggingarstofnunar en heilbrigðisráðherra varð óður við þær fréttir og sagðist ekki vilja fræðimenn í það starf.
Þegar hún svo sótti um starfið var það sá hinn sami heilbrigðisráðherra sem sá um starfsviðtalið.
Sá sem var ráðinn var fyrrverandi aðstoðarmaður Friðriks Sophussonar í fjármálaráðuneytinu.

Þegar ljóst var að hún ætlaði að tala á fundinum - og myndi líklega segja frá veru sinni í nefndinni og samskiptum við heilbrigðisráðherra - var henni hótað af ráðherra í ríkisstjórninni (sem reyndar þvertekur fyrir að um hótun hafi verið að ræða, heldur heilræði).

Þetta er auðvitað ekkert í fyrsta sinn sem ráðherrar hegða sér svona, en það er mjög mikilvægt að þarna steig Sigurbjörg fram og sagði frá þessu.

Hún sagði að með því að segja frá þessu væri hún að bjóðast til að vera kanarífuglinn í kolanámunni, þ.e. nú getum við fylgst með hvað verður um hennar starfsferil eftir þetta. Haldi núverandi ástand áfram, mun Sigurbjörg ekki fá neinar stöður á Íslandi,** henni verður ekki vært. Verði hér einhver siðbót, verður hún ekki látin gjalda þessa.

___
* Þetta var ágætis fundur en þó hefðu þau sem sátu hann fyrir hönd Viðskiptaráðs mátt fá lengri tíma til að sýna fram á hroka sinn og algert skilningsleysi á eigin ábyrgð. 90% af þeirra ábendingum varð að lögum frá alþingi, ef ég man rétt, og eru þau því meira en lítið ábyrg fyrir þeim hluta frjálshyggjupólitíkurinnar sem snýr að því að fjármálakerfið skuli látið eftirlitslaust. Fundarstjóri hefði betur leyft þeim að afhjúpa sig nánar.
** Þegar deilur um Kárahnjúkavirkjun stóðu sem hæst var varasamt fyrir jarðfræðinga og aðra fræðimenn að gagnrýna virkjunina, það var ávísun á þöggun og útilokun.

Efnisorð: , , ,