miðvikudagur, janúar 21, 2009

Byltingin, dagur eitt

Þrátt fyrir gífuryrði hér á blogginu og útí bæ þegar ég tala við fólk um aðgerðarleysi stjórnvalda, sukksemi og spillingu - um hverja eigi að leita uppi og hvað eigi að gera við þá - þá gleðst ég ekki neitt yfir mótmælunum við alþingi. Samkvæmt öllu mínu upplagi ætti ég að vera sigri hrósandi yfir því að við séum loksins farin að láta í okkur heyra, séum loksins farin að mótmæla svo eftir sé tekið, en svo er ekki.

Eftir því sem ég sé meira um mótmælin á vefmiðlum og bloggum og í sjónvarpinu, því verr líður mér.

Mér finnst óumræðilega sorglegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa sagt af sér áður en til þessa kom (það er þyngra en tárum taki ef hún gerir það ekki í kjölfarið) og það er óskiljanlegt á einhvern lamandi hátt að þjóðin sé sokkin í svo djúpt skuldafen sem raunin virðist vera.

Mig langar að gráta hástöfum og kasta yfir mig ösku vegna þess óréttlætis að það séu menn sem ganga frjálsir um göturnar sem bera ábyrgð á þessu og að þeir gerðu þetta bara til að græða og þykjast merkilegir. Þvílíkt fánýti.

Mér er illt.

Efnisorð: