mánudagur, janúar 19, 2009

Hvaða ár var það sem Sjónvarpið setti á laggirnar fréttaskýringaþátt með viti?

Hinn nýi fréttaskýringaþáttur Sjónvarpsins, Fréttaaukinn, var hin besta skemmtun. Saklausar sálir héldu e.t.v. að hann ætti að vera til þess að fjalla nánar um einstök mál sem upp hafa komið í kjölfar bankahrunsins, t.d. eitthvað af öllum hneykslismálunum eða reyna að grafast fyrir um sannleiksgildi samsæriskenninga, nú eða útskýra hugtök og heiti í hagfræði. En nei. Það var hinsvegar óskaplega mikið agalega skemmtilega farið í geymslur Sjónvarpsins og skoðað hvernig fjallað var um ríkisstjórnarfundi í gamla daga - og viti menn - það var alveg eins og núna. Þetta fannst nú Elínu Hirst fyndið.

Svo var soldið alvarlegur kafli þarna um Palestínu og náði hann líklega yfirlýstu markmiði þáttarins um „að skýra málefni líðandi stundar,“ en hann var líka það eina sem minnti á það markmið.

Tímanum þótti þáttastjórnendum greinilega betur varið í að vera með létta getraun fyrir sjónvarpsáhorfendur heima í stofu - það má aldrei gleyma þeim sem heima sitja - og til öryggis var gátan lögð tvisvar fyrir áhorfendur. Mér fannst form gátunnar sérlega frumlegt. Eða sko, fyrir utan það að þetta sama form er notað á útvarpi Latabæ, þar sem á klukkutíma fresti er svona gáta um „hvaða ár var það?“ er spiluð á heila tímanum. Afar metnaðarfullur þáttur hjá Sjónvarpinu.

Efnisorð: