mánudagur, janúar 26, 2009

Þó fyrr hefði verið

Byltingin tókst.* Ríkisstjórnin er fallin.

Merkilegt samt að það sé fyrst núna sem Samfylkingin sér að Sjálfstæðisflokkurinn hefur meiri áhuga á að hanga á valdastóli en nokkru öðru. Jafn furðulegt er að Sjálfstæðisflokki sé það fyrst nú ljóst að hver höndin sé uppi á móti annarri í Samfylkingunni.

Ég hef nýlokið við að lesa Veröld sem var, eftir Stefan Zweig, en þá bók nefndu tveir ef ekki þrír Samfylkingarmeðlimir (Ingibjörg Sólrún, Björgvin G og gott ef ekki Kristrún Heimis) sem sína uppáhaldsbók í Kiljunni. Mér þótti það nánast fyndið að þau hefðu svona svipaðan bókmenntasmekk og velti fyrir mér hvort þau hefðu bara sagt þetta í einhverskonar ímyndarsköpunarskyni. Bókina hafði ég lesið áður og gat svosem tekið undir með þeim að hún er góð. Þó las ég hana með öðru hugarfari nú þegar ég las hana aftur og þá ekki síst með dálæti Samfylkingarinnar á henni í huga. Kannski gef ég mér tíma til að ræða það betur síðar.

Bókin hefur verið mér ofarlega í huga í dag vegna titils hennar, sem er lýsandi fyrir brotthvarf Samfylkingarinnar úr ríkisstjórn.** Ég íhugaði að nota hann sem yfirskrift þessarar bloggfærslu en tímdi svo ekki að splæsa honum á Samfylkinguna.

Nú er auðvitað spennandi að sjá hvað gerist næst (og kvíðvænlegt líka). Skilyrði forseta fyrir stjórnarmyndun eru athyglisverð og spurning hvort þetta sé stóra snilldin og verði okkur til bjargar eða hvort hann sé að gera sjálfan sig að miðpunkti athyglinnar - eingöngu athyglinnar vegna - eins og honum er svo tamt.

___
* Auðvitað er byltingunni ekki lokið. Enn á eftir að hreinsa útúr Seðlabankanum, taka á auðjöfrunum og bankaliðinu. En mig langað svo að fá að segja „Byltingin tókst“ að ég gat ekki beðið með það lengur. Það er enginn vafi í mínum huga að mótmæli undanfarinna vikna eru orsök þess að Björgvin G sagði af sér og ríkisstjórnin féll.

** Vonandi verður „Veröld sem var“ yfirskrift pósts hjá mér einn góðan veðurdag þegar ég sé framá að frjálshyggja verði aldrei framar viðmið stjórnvalda.

Efnisorð: , ,