þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Græðgi karla verðlaunuð

Enn einu sinni kemur í ljós að launamunur kynjanna er umtalsverður, nú síðast í rannsókn sem sýndi að enn meiri munur er á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Lausnin, að mati margra karlmanna, er auðvitað ekki að borga öllum jafnt, heldur sú að konur verði duglegri að fara fram á hærri laun. Þær eigi ekki að sætta sig við lægri laun en karlar og þannig leysist málið. Bara spyrja stelpur mínar og þá fáið þið það sem þið viljið. Í mörgum tilvikum er hinsvegar ekkert hægt að vita hvað karlarnir hafa í laun því launaleynd ríkir víða.

Þetta hef ég allt fjallað um áður.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvernig fer fyrir öllum vellaunuðu guttunum sem fengu betri laun en jafn vel menntaðar konur með sömu starfsreynslu. Hvað gerist þegar þeir koma niðurlútir og hnípnir að skrá sig atvinnulausa* og eru þar með komnir í flokk með fólki sem er afætur** á kerfinu? Geta þeir samið um hærri atvinnuleysisbætur í krafti kynferðis síns - úps, ég meina vegna þess að það er nóg að biðja bara um meiri pening og þá fær maður hann? Eða þurfa þeir, rétt eins og konur sem eru atvinnulausar, að þiggja það sem að þeim er rétt?

Getur ekki verið að sú krafa að konur eigi að biðja - sem eintaklingar, hver við sinn vinnuveitanda - um hærri laun en þeim er boðið - sé einfaldlega röng? Byggir hún ekki á þeirri hugmynd sem okkur (sem samfélagi) er að verða æ ógeðfelldari, að heimta meira og meira og að græðgin sé verðlaunuð? Er ekki skárra að vinnuframlag (rétt eins og atvinnuleysi) sé föst tala sem gildir fyrir öll?***

___
* Af tillitssemi við alvöru fólk er nú hægt að skrá sig á netinu, áður mátti skríllinn standa í röð og afhjúpa sig sem atvinnuleysingja.
** Alltaf vinsælt hjá frjálshyggjuguttum og öðru ómerkilegu fólki að finnast öryrkjar og atvinnulaust fólk vera sníkjudýr og tala um það sem svikult og latt.
*** Laun fyrir vinnu miðist auðvitað við menntun, starfsaldur og reynslu. En ekki kyn, frekju og græðgi.

Efnisorð: , , ,