sunnudagur, mars 08, 2009

Áhyggjulaust ævikvöld

Tvennt kom mér mest á óvart þegar farið var að grafa í rústunum eftir bankahrunið. Annarsvegar að heyra að fiskveiðikvótinn væri veðsettur í þýskum banka - mér hefur fundist kvótakerfið ósanngjarnt* auk þess sem það hefur lagt byggðir landsins í eyði - en aldrei hafði hvarflað að mér að hann væri veðsettur og hvað þá útfyrir landið. Það hljómar vægast sagt eins og landráð í mínum eyrum, því hvað ef bankinn ákveður að innheimta veðið - eða selur öðrum það sem innheimtir það og á þar með allan fisk, veiddan sem óveiddan á Íslandsmiðum um ókomin ár?

Hitt, sem kom mér illilega á óvart var að heyra um brask lífeyrissjóðanna. Mig rámar í sögur um að einhverjir þeirra hafi keypt hlutabréf í Decode á sínum tíma og gott ef einhverjir þeirra fóru ekki á hausinn. Einhver hefði nú haldið að af því hefði verið dreginn lærdómur. En nei, þeir virðast hafa verið í allskyns meira og minna vafasömum fjárfestingum, ekki bara hér á landi heldur í útlöndum líka.** Og ég bara skil það ekki.

Ég hélt að tilgangur lífeyrissjóða væri að fólk borgaði þangað hluta af laununum sínum alla ævi og við starflok - hvort sem það væri vegna aldurs, sjúkdóma eða slysa - fengi fólk greitt úr sjóðnum til þess að geta framfleytt sér. Til þess að peningarnir væru öruggir hjá sjóðnum væru þeir geymdir í einhverju mjög öruggu og tryggu, sem ég sé einhvernveginn alltaf fyrir mér sem litla krúttlega sparisjóðsbók með lítilli ávöxtun. Og ég sá fyrir mér gamla gráhærða konu sem dundaði sér við að færa bókhald sjóðsins og fylgjast af umhyggju með að sjóðurinn væri á sínum stað þegar til þyrfti að taka.*** En raunin er semsagt önnur.

Lífeyrissjóðir eru með yfirmenn sem líta ekki á sig sem vörslumenn fyrir innistæður almennings heldur áhættufjárfesta. Sem slíkir þurfa þeir (eða þurftu 2007) að aka um á dýrum jeppum sem vinnan skaffaði þeim, auk ofurlauna. Svo sátu þeir í stjórnum bankanna eða voru í miklu samkrulli við þá og fjárfestingafyrirtæki og litu á sig sem hluta af því glæpagengi fremur en menn í embætti sem krefðist ráðdeildarsemi, áhættufælni og trausts.

Í Silfri Egils var maður sem hefur skoðað þessi lífeyrissjóðamál (aðallega VR heyrðist mér) og þó mér fyndist hann ekki nægilega skýr þá var ágætt hjá honum að nafngreina menn og benda á að það virtist sem menn í stjórn lífeyrissjóða hefðu átt maka og ættingja (og örugglega vini) innan t.d. Kaupþings og því algerlega ljóst að þar var samkrullið þannig að Kaupþing átti hagsmuna að gæta í VR og VR átti hagmuna að gæta í Kaupþingi. En enginn hirti um hagsmuni lífeyrissjóðsfélaga.

Lífeyrissjóðsgreiðslur hafa lengi verið til skammar.**** Lífeyrissjóðir - og skylduaðild að þeim - voru stofnaðir til þess að fólk gæti átt sæmileg elliár án þess að lifa við fátækt. Með því að starfsmenn eða yfirmenn lífeyrissjóða líti á þá sem tækifæri til að hagnast persónulega (auk þess að leika sér með stóru strákunum í að veðja peningunum hingað og þangað til að sjá til hvernig tekst og ef illa fer þá bara úps, gengur betur næst, ha strákar, hehe) þá tapa sjóðirnir fé - fyrir utan það þegar fjárfestingarnar klikka og sjóðurinn tapar hreinlega peningum, sbr. Decode (og samkvæmt Silfri Egils hafa lífeyrissjóðirnir tapað miklu í bankahruninu þó þeir viðurkenni það ekki). Almenningur - sem er skikkaður til að borga í lífeyrissjóð - á betra skilið en að svona kújónar véli með peningana.

Ég hef nú ekki einu sinni geð á að fara að tala um séreignalífeyrissparnaðinn eða viðbótarlífeyrissjóðsparnaðinn eða hvað það nú er kallað. Það er nú meiri svikamyllan.

___
* Mér finnst ekki ósanngjarnt að takmarka fiskveiðiheimildir - það má auðvitað ekki ganga svo á fiskistofna að þeir séu kláraðir - heldur felst ósanngirnin í því að völdum aðilum var afhentur kvótinn í byrjun og þeir máttu braska með hann. Í hvert sinn sem kvóti (þ.e. bátur sem hafði kvóta) var seldur frá byggðalagi tapaðist atvinna og í mörgum tilfellum brast á fólksflótti í kjölfarið en jafnframt sat alltaf einhver hluti fólksins uppi með óseljanlegar húseignir hvort sem það fór frá staðnum eða ekki.

** Ég áttaði mig fyrst á þessu þegar ég heyrði uppástungur þess efnis að lífeyrissjóðir ættu að „koma heim“ með peninga sem þeir hefðu fjárfest í útlöndum og þá til að rétta bankana við. Í fyrsta lagi, hvað voru þeir að gera í útlöndum með peningana og í hverju voru þeir að fjárfesta þar? Vopnaframleiðslu? Veit það einhver? Og í öðru lagi, afhverju í ósköpunum ætti að fórna lífeyrissparnaði almennings til að rétta við bankana, er ekki nóg sem við munum borga samt í gegnum skattana okkar og tapaðar innistæður og hækkandi skuldir?

*** Í fyrirtæki sem ég vann hjá fyrir mörgum árum var sérstakur lífeyrissjóður og þar vann einmitt svona kona. Hún gæti þó hafa verið með einhverja kalla yfir sér sem rökuðu inn peningum á því að vera yfirmenn sjóðsins, án þess að ég vissi það. En sá lífeyrissjóður - og þetta veit ég bara vegna þess ég fæ afogtil sent yfirlit um „gríðarlega“ inneign mína - hefur margsinnis runnið saman við aðra lífeyrissjóði og skipt um nafn í hvert sinn, með þeim afleiðingum að ég er alltaf jafn hissa þegar ég fæ yfirlitið og kannast ekkert við að hafa verið í lífeyrissjóði með þessu (nýja) nafni.

**** Faðir minn fær rúmar þrjú þúsund krónur á mánuði í lífeyri. Sjóðurinn sem hann greiddi í áratugum saman varð gjaldþrota (líklega á Decode) og þetta er afraksturinn.

___
Viðbót: Daginn eftir að ég skrifaði þetta þegar Straumur-Burðarás, sem mun vera nafn á fjárfestingabanka, fór á hausinn, fyrstur slíkra eftir stóra bankahrunið í október 2008. Lífeyrissjóðirnir hafa verið svo ansi forsjálir að fjárfesta í honum ... Listi yfir hlutafjáreign þeirra má lesa með því að fylgja tengli neðst á moggasíðunni en svo er líka búið að taka þetta saman hjá frjálshyggjufávitunum á „frjálsa fréttaskýringavefnum.“

Efnisorð: , , , , ,