sunnudagur, mars 29, 2009

Goð og meinvættir

Nokkur ummæli og brot úr ræðum sem ég vildi gjarnan hafa sagt sjálf eða fundið fyrst en læt mér nægja að stela frá öðrum. Hef ekki einu sinni neinu gáfulegu við þetta að bæta, þetta segir sig sjálft.

Einhver varpaði þessari spurningu fram þegar var verið að tala um það sem Pétur Blöndal sagði um fé án hirðis: Hver á að gæta hirðisins?

Önnur ummæli: Með óheftum kapítalisma koma óheftir kapítalistar.

Barack Obama var frábær í þætti Jay Leno þegar hann var að útskýra ofurlaun og aðgerðir í efnahagsmálum. Honum tókst að útskýra málin á einfaldan hátt og höfða til réttlætiskenndar áhorfenda. Það er ekki skrítið að hann hafi hrifið kjósendur.

En aðalræðumenn vikunnar* að mínu mati eru tveir þingmenn sem hafa löngum setið sinn á hvorum enda skalans rétt og rangt.

Ögmundur Jónasson í umræðu um einkavæðingu bankanna 1999:

„Banki er ekki bara fyrirtæki sem veitir þjónustu, banki er ekki aðeins stofnun sem lánar peninga, þannig er vissulega hægt að nota banka og það sem má nota, má einnig misnota. Banki getur nefnilega veitt eigendum sínum áhrif og völd. Ef sömu aðilarnir og taka þátt í samkeppni á markaði eiga og stjórna einnig fjármálastofnunum landsins gefur augaleið að sú hætta er fyrir hendi í ríkari mæli en nú er að þeir verði notaðir til að veita eigendum sínum fyrirgreiðslu til að auðgast. [...] Á sumum var helst að skilja --- jafnvel í máli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar --- að ef hagkerfin væru látin leika lausum hala og þar ríkti frjáls samkeppni þá yrði allt gott. Staðreyndin er sú að frjálsa samkeppni þarf að tryggja með lagalegum ramma. Það þarf að tryggja samkeppnina með umgjörð. Annars leitar allt, bæði peningarnir og valdið, á einn stað eða fáa, til einokunar og fákeppni. [...] Af þessum sökum höfum við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sagt þrennt.

Í fyrsta lagi höfum við sagt: Förum varlega í sakirnar. Reynum að ná sátt um markalínur á milli hins opinbera annars vegar og markaðar hins vegar. Förum rækilega yfir hagkvæmnisþætti einkavæðingar. Spyrjum hver hagnist þegar upp er staðið, skattgreiðandinn, notandinn, neytandinn eða nýir eigendur. Út á þetta gekk þáltill. sem við fluttum fyrst í vor og aftur núna í haust.

Í öðru lagi: Í þeim tilvikum sem ríkisstjórn og meiri hluti Alþingis er staðráðinn í því að selja stofnanir eða fyrirtæki viljum við að búinn verði til lagarammi sem stuðlar að dreifðri eignaraðild og spornar gegn samþjöppun á peningum og þar með valdi. Þess vegna fluttum við sérstakt lagafrv. um dreifða eignaraðild fjármálastofnana þar sem eignarhlutur færi ekki yfir 8%.“

Sigurður Kári var afturámóti í klappliði græðgisvæðingarinnar, og sagði þetta árið 2004:

„Ég er einnig þeirrar skoðunar, af því ég er að fjalla almennt um einkavæðingu, að einkavæðing ríkisviðskiptabankanna hafi verið einn merkasti áfanginn í efnahagssögu okkar á síðustu árum. [...] Hverjum hefði dottið í hug þegar bankarnir voru einkavæddir að þeir mundu vaxa og dafna á svo undraskömmum tíma sem raun hefur orðið á og væru orðin fyrirtæki af þeirri stærðargráðu sem standast erlendum bönkum og fjármálafyrirtækjum fyllilega snúning í alþjóðlegri samkeppni á fjármálamarkaði? Þetta er frábær þróun, hv. þingmaður, Ögmundur Jónasson. [...]

Samkeppni á fjármálamarkaði hefur heldur aldrei verið meiri og hún hefur skilað sér sem vítamínsprauta fyrir íslenskt atvinnulíf og bætt hag neytenda, þar á meðal láglaunafólks. Besta dæmið um það eru nýkynnt húsnæðislán bankanna á betri vaxtakjörum en áður hafa þekkst á Íslandi og gera má ráð fyrir að þau húsnæðislán og vaxtakjör sem bankarnir eru að bjóða núna spari íslenskum neytendum 7–8 milljarða í formi lægri vaxtagreiðslna. [...]

Ég minni hv. þm. líka á það að ávinningur skattgreiðenda af einkavæðingu síðustu ára hefur verið gríðarlegur. [...] Nú er staðan hins vegar þannig að þessir bankar eru sterkar fjármálastofnanir eins og ég vísaði til áðan samanber frétt á forsíðu Fréttablaðsins í dag að þetta eru sterkar fjármálastofnanir sem þurfa ekki á neinni fyrirgreiðslu frá opinberum aðilum að halda og sýnir og sannar hversu vel einkavæðingin hefur tekist.“

Hvor ræðan hefur nú elst betur?

Lýsi svo yfir að Ögmundur komst í goðatölu hjá mér fyrir að afþakka ráðherralaun.

___
* Nei, hér verður ekki vísað til hroðans sem vall uppúr þessum með Jesúkomplexana. Mér verður of ómótt.

Efnisorð: , ,